Á valdaskeiði vinstri stjórnar voru sett lög um þátttöku ríkisins í byggingarkostnaði barnaheimila. Í lögunum er tekið fram, að sveitarfélögin missi réttinn til aðstoðar ríkisins, ef þau hefja framkvæmdir án leyfis þess. Jafnframt hefur sáralitlu fé verið varið til þátttöku ríkisins í þessum kostnaði.
Afleiðingin er sú, að framkvæmdir við barnaheimili hafa dregizt saman. Sveitarfélögin vilja af eðlilegum ástæðum ekki missa af ríkisaðstoðinni og halda því að sér höndum, þótt víða sé knýjandi þörf á barnaheimilum. Ef lögin um ríkisaðstoðina hefðu ekki verið sett, væri mun meira byggt af barnaheimilum en nú er raunin á. Þannig eru áhrif hinnar dauðu handar ríkisins.
Þannig ræðst ríkisvaldið inn á hvert verksvið sveitarfélaganna á fætur öðru og þrengir um leið aðstöðu þeirra til að fjármagna sjálf framkvæmdir innan sinna vébanda. Þannig þenst ríkið sjálfkrafa út á kostnað sveitarfélaganna.
Með hinni nýju ríkisstjórn á að verða á þessu mikil breyting. Í stjórnarsáttmálanum segir: “Sveitarfélögunum séu falin aukin verkefni og fjárhagslegur grundvöllur þeirra endurskoðaður til þess að tryggja sjálfstæði þeirra og framkvæmdagetu”.
Enginn vandi er að finna verkefni við hæfi sveitarfélaganna. veitukerfi gætu almennt verið í eigu sveitarfélaga og samtaka þeirra. Sveitarfélög gætu kostað byggingu hafna. Þau gætu haft allt skyldunámið á sinni könnu. Heilsugæzla og löggæzla gætu verið verkefni sveitarfélaga.
Sum verkefni eru einstökum sveitarfélögum ofviða. Þá getur komið til kasta samtaka nokkurra sveitarfélaga eða heilla landshlutasamtaka. Og það er einmitt á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, að “réttarstaða landshlutasamtaka verði ákveðin”.
Þrátt fyrir þessar breytingar getur ríkið áfram haft það verkefni að efla jafnvægi í byggð landsins. Ríkið þarf að hafa nokkurt fjármagn til ráðstöfunar til jöfnunar á aðstöðu, svo sem til að kosta heimavistir skóla og taka þátt í kostnaði við gerð hafna og félagslegra mannvirkja í sveitarfélögum, sem ella yrðu undir í samkeppninni við öflugu sveitarfélögin. En í öllum slíkum tilvikum á framkvæmdin að vera í höndum heimamanna sjálfra.
Auðvitað þarf ríkið eftir sem áður að hafa aðstöðu til að fylgjast með því, að uppfylltar séu í einstökum sveitarfélögum almennar gæðakröfur þjóðfélagsins. Og ríkið getur annazt ýmsa sérfræðilega þjónustu, sem sveitarfélögin geta keypt og notfært sér til að forðast tvíverknað.
Ef þannig er vandað til málsins, er unnt að flytja veigamikil verkefni úr ríkisbákninu og fela þau sveitarfélögunum, sem standa miklu nær einstaklingunum sjálfum og þekkja betur þarfir fólksins. Það er unnt að flytja fjármagn hins opinbera og ákvörðunarvald þess heim í hérað.
Þetta er ein mikilvægasta leiðin til dreifingar valdsins í þjóðfélaginu. Henni hefur ekki verið sinnt sem skyldi. En nú er. ráðgerð á því bragarbót,sem markar þáttaskil í þróun íslenzks þjóðfélags.
Jónas Kristjánsson
Vísir