Lesendabréf á annarri síðu Dagblaðsins á fimmtudaginn er nærtækt dæmi um tillitsleysi hins opinbera í garð almennra borgara. Þar var lýst vandræðum manns, sem hafði ódrukkinn lent undir grun um ölvun við akstur.
Ef hann hefði fengið að blása í blöðruna á staðnum, þar sem hann var tekinn, hefði allt farið vel. Hann og farþegar hans hefðu fengið að fara sína leið að lokinni smávægilegri töf.
Hinar ómannúðlegu reglur lögreglunnar segja, að ökumenn verði að færa til stöðvar til að blása í blöðru. Slíkt kostar mikinn tíma, óþægindi og fjármuni, bæði fyrir ökumanninn og farþega hans.
Umstang af þessu tagi ætti að þurfa að byggjast á meiri líkum en hugdettum lögreglumanna, sem halda, að einungis fullir menn komi út úr matstofum, er hafa vínveitingaleyfi.
Þegar umræddur borgari hafði sætt margvíslegum yfirgangi á lögreglustöðinni, ætlaði hann að afla sér blóðprufu á slysadeild Borgarsjúkrahússins, en gat það ekki. Réttu glösin voru ekki á staðnum og lögreglan neitaði að láta slík glös af hendi.
Þegar yfirmaður í lögreglunni neitar að láta af hendi hlut, sem hugsanlega gæti orðið mikilvægt sönnunargang í þágu almenns borgara, sem hefur orðið fyrir aðkasti lögreglunnar, jafngildir það yfirlýsingu yfirmannsins um, að hann sjálfur sé ekki fær um að gæta laga og réttar.
Opinber þjónusta virðist vera of mikið setin af fólki með grilluna: “Valdið,það er ég”. Lögreglan er alls ekki eina dæmið um slíkt.
Við getum tekið dæmi af öðrum borgara, sem færir sér til frádráttar á skattskýrslu hluta af kostnaði við rekstur eigin bíls vegna starfa í þágu fyrirtækisins, sem greiðir honum laun. Þetta gerir hann í nákvæmu samræmi við skráðar reglur á þar til gerðum eyðublöðum og prentaðar leiðbeiningar ríkisskattstjóra.
Ekkert er við það að athuga, að þessi maður sé þrjú ár í röð beðinn um að senda nótur til sönnunar á upphæðum í skattskýrslu. Skattstofur eiga einmitt að fara ofan í saumana á úrtaki úr skattskýrslum.
Hitt er alvarlegra, þegar umrædd skattstofa tekur ár eftir ár ekkert mark á gögnum þeim, sem hún biður um. Borgarinn verður að leggja fram eigin vinnu og kostnað við endurskoðanda til að fylgja kærumálum sínum eftir.
Auðvitað endar þessi dans með því, að hið opinbera verður að viðurkenna, að eigin reglur skuli gilda, en ekki einhverjar hugdettur, sem aðgerðalitlir menn á skattstofum fá til að drepa tímann.
Óteljandi eru dæmin af þessu tagi úr öllum greinum opinberrar þjónustu. Almennir borgarar eiga ekki lengur að þola ástandið, heldur snúast til varnar. Og það gera þeir með samtökum.
Spurningin er sú, hvort starfandi samtök eins og Neytendasamtökin eða Réttarvernd eigi að færa út kvíarnar eða hvort stofna þurfi sérstök samtök til að létta af hinum almenna borgara ýmsu amstri, sem fylgir því að standa uppi í hárinu á mönnunum með grilluna: “Valdið, það er ég”.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið