Greinaflokkur Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu um valdabaráttu í fjármálaheimi landsins gefur góða innsýn í sérstæð tengsli stjórnmála og viðskipta, sem hafa þungamiðju í girnilegum fjármálastofnunum. Í skjóli fáokunar raka blokkir saman fé, sem notað er í valdatafli. Þetta er ekki vestrænn kapítalismi, heldur eins konar austrænt óligarkí að rússneskum hætti. Hagkerfi fáokunar, þar sem eitt til þrjú fyrirtæki ráða ferð í hverjum geira efnahagslífsins, er ekki til þess fallið að auka hagvöxt og bæta lífskjör í þjóðfélaginu, heldur aðeins til að safna tiltækum peningum á fáa staði. Eina undankomuleiðin úr bóndabeygju fáokunar er að opna þjóðfélagið betur fyrir erlendu framtaki. Við þurfum útlenda banka og sjóði, flugfélög og skipafélög, tryggingafélög og olíufélög, verzlunarkeðjur og símafélög.