Valdastéttin veður fram

Greinar

Hrun Þörungavinnslunnar við Breiðafjörð er dæmi um, hve illa getur farið, þegar stjórnmálamenn ráða fjármagni þjóðarinnar og sóa því í gæluverkefni, sem eiga að kaupa þeim atkvæði.

Steingrímur Hermannsson, þingmaður Vestfjarða og framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, hefur látið brenna einum milljarði af almannafé til að kaupa honum atkvæði í Reykhólasveit. En uppskeran er sú, að gæluverkefnið er gjaldþrota og sjálft sveitarfélagið rambar á barmi gjaldþrots.

Þetta stafar ekki af óvæntum erfiðleikum. Það var fyrirfram vitað, að ekki yrði unnt að reka Þörungavinnsluna á þann hátt, sem til hennar var stofnað. Sá vísindamaður, sem hafði rannsakað málið í 17-18 ár, taldi tæknina við þangskurðinn enn ekki komna á það stig, að verksmiðjan yrði hagkvæm.

Svona upplýsingar þola ekki valdastéttarmenn, sem búa yfir takmarkalítilli óskhyggju. Vísindamaðurinn var einfaldlega rekinn og fengnir jámenn til að komast að þeirri niðurstöðu, sem þingmaðurinn vildi fá. Og þessir jámenn neituðu bæði að lesa og greiða umbeðnar skýrslur vísindamannsins.

Ekki fór hjá því, að framkvæmdastjórar og aðrir starfsmenn sæju, að dæmið gat ekki gengið upp. Samt voru viðvaranir þeirra látnar sem vindur um eyru þjóta. Og væri framhald á múðri þeirra, voru þeir einfaldlega reknir.

Keyptir voru ónothæfir þangskurðarprammar, sem ekki höfðu næg afköst. Og keyptur var þurrkari, sem ekki nýtti heita vatnið nógu vel. Höfðu þó tilraunir sýnt, að hvorugt kunni góðri lukku að stýra.

Forvitnilegt er fyrir almenning að reyna að setja sig inn í hugarfarið, sem liggur að baki, þegar þannig er anað áfram í blindni án þess að hirða um staðreyndir, sem liggja á borðinu, og fórnað heilum milljarði króna af almannafé og fjárhag heils sveitarfélags.

Svona hugsun grefur um sig hjá valdastétt, sem hefur náð tökum á fjármagni þjóðarinnar með völdum sínum yfir bönkum, sjóðum og Framkvæmdastofnun. Hún fyllist nægum hroka til að telja sér heimilt að ráðskast í kunnáttuleysi með fjármagn þjóðarinnar. Og hún fær útrás fyrir óskhyggju gagnvart margvíslegum gæluverkefnum, meðan heilbrigð iðnvæðing verður að sitja á hakanum.

Gæluverkefnin fá fríðindi í tollum, söluskatti, raforkuverði, jarðhitaborunum, vegagerð og hafnargerð, svo að dæmi séu nefnd. Sá iðnaður, sem ekki liggur þannig upp á þjóðinni, fær hvergi fjármagn til eðlilegrar þróunar, því að þörungavinnslur óskhyggjunnar sleikja rjómann.

Þjóðin getur haft það til merkis um samábyrgð allra stjórnmálaflokkanna á þessu arðráni, að Steingrímur Hermannsson og jámenn hans verða ekki látnir sæta ábyrgð fyrir hina einstæðu framgöngu í þörungavinnslunni.

Allir flokkarnir eiga sínar þörungavinnslur, þótt í smærri stíl kunni að vera. Þess vegna þegja þeir yfir syndum hver annars og láta þjóðina borga brúsann.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið