Úttekt Hagrannsóknarstofnunar ríkisins á efnahagsástandinu er nú komin í hendur allra alþingismanna. Þessi úttekt sýnir, að ástandið hefur versnað svo mjög síðan í vor, að bráðabirgðaaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa ekki megnað að draga hið minnsta úr öngþveitinu.
Erlend verðbólga er ekki lykillinn að þessu slæma ástandi. Viðskiptakjörin hafa vissulega versnað svo á árinu, að þjóðartekjur á mann verða lægri á þessu ári en þær voru í fyrra. En viðskiptakjörin verða þó ekki verri en svo á árinu, að þau verða svipuð og árið 1972, betri en árið 1971 og mun betri en nokkurt ár viðreisnarstjórnarinnar.
Hagrannsóknastofnunin gerir ráð fyrir að viðskiptajöfnuðurinn verði óhagstæður um 8,2 milljarða á árinu og jafnvel um 9,2 milljarða, ef illseljanlegar birgðir hlaðast upp á árinu. Gjaldþrot þjóðarbúsins er svo hindrað með því að taka 9 milljarða erlend lán á árinu. Þetta verður þó ekki unnt að leika áfram, því að lánsfé er orðið af mjög skornum skammti á erlendum vettvangi og vextir af slíku fé komnir upp í 15%.
Úttektin sýnir, að með óbreyttri þróun verðlags og kaupgjalds er.stefnt að 50% verðbólgu á ári Gert er ráð fyrir, að kaupgjaldsvísitalan hækki um 28.8% 1. september, jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir frekara gengissigi en þegar er orðið.
Ef gert er ráð fyrir, að kaupgjaldsvísitölunni verði áfram haldið úr sambandi og að gengið sígi áfram eins og að undanförnu, kemst kaupmáttur launa aftur niður fyrir það, sem hann var við myndun vinstri stjórnarinnar 1971. Væru þá þrjú ár orðin til lítils, ef óstjórnin ætti að enda með því.
Úttektin sýnir, að enn vantar nokkuð upp á, að gengið sé rétt skráð. Fiskiskipaflotinn er rekinn með 10% halla og gerir það um 1,4 milljarða á ársgrundvelli. Þar til viðbótar kemur svo taprekstur frystihúsanna, sem nemur einnig um 1,4 milljörðum króna á ársgrundvelli.
Einnig kemur í ljós, að ríkið, ríkisstofnanir og fjárfestingarsjóði þess vantar um 5 milljarða króna til að standa við skuldbindingar sínar, þrátt fyrir rosalegar tollatekjur af óeðlilega miklum innflutningi, og þótt kosningaveizlu niðurgreiðsla verði hætt.
Sem dæmi má nefna, að Vegasjóð vantar 800 milljónir, Póst og síma 500 milljónir. Rafmagnsveitur ríkisins 400 milljónir, Reykhólaverksmiðjuna 300 milljónir, Olíusjóð fiskiskipa 800 milljónir, Byggingasjóð ríkisins 300-400 milljónir króna, Stofnlánadeild landbúnaðarins 400 milljónir króna og Framkvæmdasjóð 200 milljónir.
Stjórnmálaflokkarnir standa því andspænis þungbærum ákvörðunum á næstunni. Viðtakandi stjórn þarf væntanlega annað hvort að láta gengi krónunnar síga áfram um 10-15% eða gera hliðstæðar ráðstafanir til að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi. Hún þarf sömuleiðis væntanlega að leiðrétta verðlag á ýmsum sviðum til að hindra, að opinber fyrirtæki og einkafyrir tæki verði gjaldþrota. Og hún þarf væntanlega að semja við launþegasamtökin um, að frekari hækkanir kaupgjalds skrúfi verðbólguna ekki meira upp en orðið er og sjá jafnframt um, að þessar ráðstafanir komi sem minnst við þá lægst launuðu.
Ekki er því hægt að segja annað en að viðskilnaður vinstristjórnarinnar sé einstaklega ömurlegur.
Jónas Kristjánsson
Vísir