Þráskák þrýstihópanna í efnahagslífinu er einna stórbrotnust umhverfis aðalþræl þjóðfélagsins, sjávarútveginn. Efnahagsbjargráð Alþingis á undanförnum vetri eru ljóst dæmi um ölduhæðina í þessum sviptingum.
Þrýstihópur sjávarútvegsins ræður að vissu marki öllu, sem hann vill ráða. Hann getur látið stjórnmálamennina tryggja sjávarútveginum að meðaltali núllrekstur í greininni sem heild. En meira getur hann ekki, því að þá er öðrum þrýstihópum að mæta, sem eru líka voldugir.
Þrýstihópur sjávarútvegsins hefur ekki mátt til að knýja fram raunhæf hlutaskipti á flotanum né rétta skráningu gengis krónunnar. Núverandi hlutaskiptareglur taka hvorki tillit til aukinnar þátttöku rándýrs tækja. og veiðarfærabúnaðar í kostnaðinum við að ná inn aflanum, né til aukinnar þátttöku olíuverðsins í þessum kostnaði.
Ólán sjávarútvegsins er, að viðsemjandinn um hlutaskiptin kann ekki að beita spjótum sínum gegn réttum atriðum. Forsvarsmenn sjómannafélaganna eru sífellt að berjast við útvegsmenn um hlutaskiptin og sjá ekki lengra en nef þeirra nær.
Ef þrýstihópar útgerðar og sjómanna hefðu betri sýn yfir hagsmuni sína, sneru þeir saman bökum til að knýja upp fiskverðið. Jafnframt mundu þeir gera bandalag við þrýstihóp fiskiðnaðarins um að fá gengi krónunnar lækkað, svo að fiskiðnaðurinn geti greitt hærra fiskverð.
Of há gengisskráning er meginástæðan fyrir því, að sjávarútvegurinn nýtur ekki afkasta sinna. Árlega eru milljarðar fluttir frá fiskiðju, útgerð og sjómönnum út í aðra þætti þjóðlífsins með rangri skráningu gengis krónunnar.
Hér á landi er aflamagnið á hvern sjómann þrisvar sinnum hærra en hjá Vestur-Þjóðverjum, sem næstir koma, og tíu sinnum hærra en hjá fjölda þjóða. Íslenzkur sjávarútvegur ætti því að vera mjög arðbær, meðan sjávarútvegur annarra þjóða lifir á styrkjum.
En samt berst íslenzkur sjávarútvegur í bökkum, Of há gengisskráning skyldar hann til að halda uppi flottheita-lífskjörum í landi, svo og til að halda uppi efnahagslegum ómögum á borð við landbúnaðinn.
Alþýðusamtökin í landinu sjá nefnilega til þess, að stjórnmálamennirnir þora aldrei að lækka gengið niður í raunverulegt verðgildi krónunnar. Gengi hennar er því jafnan of hátt skráð, einnig strax eftir gengislækkanir.
Áhrif þrýstihóps sjávarútvegsins renna þannig út í sandinn, þegar þau mæta áhrifum þrýstihópa alþýðusamtakanna. Þetta hefur freistað sjávarútvegsins til að leita í vaxandi mæli á náðir ríkisvaldsins.
Stjórnmálamenn og hagfræðingar sitja þess vegna með sveittan skallann við að byggja spilaborgir millifærslusjóða, sem greiða niður olíu, afborganir og vexti, svo og tryggingar fiskiskipa – allt til að bæta sjávarútveginum upp rangt gengi og röng hlutaskipti.
Það eru sérkennileg örlög undirstöðu efnahagslífsins, sjávarútvegsins, að vera í miðjum vítahring þráskákar þrýstihópakerfisins og búa þess vegna við skipulagðan núllrekstur eins og hagfræðingar stjórnmálamannanna meta hann á hverjum tíma.
Jónas Kristjánsson
Vísir