Hugmyndirnar um, að forseti Íslands eigi senn að skipa utanþingsstjórn, eru út í hött. Árangurslausar tilraunir til stjórnarmyndunar að undanförnu sanna engan veginn, að þingræðið hafi brugðizt.
Stjórnarkreppan er ekki meiri en við var að búast eftir verulegar breytingar á þingstyrk flokkanna. Við slíkar aðstæður ríkir jafnan nokkur taugaveiklun, bæði hjá sigurvegurunum og hinum sigruðu.
Dæmi Alþýðuflokksins sýnir þetta ljóslega. Flokknum tókst með óvenjulegum kosningamálum að efla þingstyrk sinn úr fimm mönnum í fjórtán. Samt hefur flokkurinn ekki nema fjórðung alþingis á sínu bandi.
Hefji slíkur flokkur stjórnarsamstarf með öðrum flokki eða flokkum, hlýtur samstarfið að byggjast á málamiðlun eins og endranær. Aðeins hluti kosningamála flokksins nær fram að ganga.
Flokkur, sem eykur styrk sinn úr fimm þingmönnum í fjórtán, hlýtur að krefjast verulegra áhrifa á stjórnarstefnuna. Samstarfsflokkar, sem beðið hafa ósigur, en eru samt jafnstórir eða stærri Alþýðuflokknum, hljóta að krefjast jafnréttis.
Við þetta bætist margvíslegur annar vandi. Fráfarandi stjórnarflokkar geta tæpast sætt sig við þátttöku í nýrri ríkisstjórn með róttækri stefnubreytingu. Sú breyting gæti litið út sem gagnrýni á fyrri störf.
Ekki er heldur unnt að ætlast til, að Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið finni sér samstarfsgrundvöll á auðveldan hátt. Í fyrsta lagi þurfa þeir þriðja flokkinn með í samstarf.
Í öðru lagi unnu þessir flokkar ekki sigra sína á sömu forsendum. Í kosningunum höfðuðu þeir til mismunandi hópa. Kosningarnar voru ekki einfalt uppgjör stjórnar og stjórnarandstöðu og ekki heldur einfalt uppgjör með eða móti svonefndu kaupráni.
Hér hefur verið rakið dæmi Alþýðuflokksins, af því að þar var röskunin mest. En einnig mætti taka alla hina flokkana. Alls staðar er taugaveiklun og tregða á samstarfsvilja vegna snöggrar breytingar á þingstyrk.
Stjórnmálamennirnir þurfa tíma til að jafna sig. Og kjósendur þurfa tíma til að átta sig á, að breyting í aðeins einum kosningum hefur takmarkað gildi. Tveggja-þriggja mánaða stjórnarkreppa er skiljanleg í slíkri stöðu.
Hitt er svo rétt, að forseti Íslands átti að beita Benedikt Gröndal og Geir Hallgrímsson meiri þrýstingi til að fá hraðari vinnubrögð. Hægagangur síðustu tveggja vikna er úr hófi fram.
Skipstjóri tekur sér ekki helgarfrí í brotsjóum. Sama á að gilda um stjórnmálamann, sem er að reyna að ná samkomulagi um stjórn á þjóðarskútu í ólgusjó. Og leikur að formsatriðum milli helga er jafn forkastanlegur.
Enn er engan veginn útilokað framhald núverandi stjórnar né nýtt úthald vinstri stjórnar. Að því frágengnu eru til möguleikar á samstarfi um minnihlutastjórn.
Utanþingsstjórn er skiljanleg sem tímabundin lausn í ríkjum, þar sem flokkar eru margir og smáir. Við erum svo heppnir að hafa aðeins fjóra þingflokka og alla stóra. Við slíkar aðstæður hafa landsfeðurnir engan rétt á að gefast upp á þingræðinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið