Viðræður undanfarinna vikna um myndun stjórnar til vinstri og hægri sýna rækilega, að stjórnmálamenn okkar, nýir sem gamlir, eru hreinir aumingjar í efnahagsmálum. Þeir kunna engar lækningar og eyða tímanum í að káka við sjúkdómseinkenni.
Þeir halla sér að sömu, gagnslausu efnahagssérfræðingunum, sem hafa átt umtalsverðan þátt í gjaldþroti tveggja síðustu ríkisstjórna. Þeir láta sérfræðingana telja sér trú um, að valið standi milli mismunandi blandna af niðurfærsluleiðum, uppfærsluleiðum, millifærsluleiðum og út- og suðurfærsluleiðum.
Allar eiga þessar leiðir það sameiginlegt að vera reikningsaðferðir. Sumir hagfræðingar hafa þá grillu, að efnahagslífi eigi að stjórna með talnaleikjum og hafa lítinn skilning á hinum raunverulegu framleiðnivandamálum úti í atvinnulífinu.
Stjórnmálamennirnir og efnahagssérfræðingar þeirra haga sér eins og læknir, sem telur sig geta læknað rauða hunda með því að skafa bletti af fólki. Þessir blettir eru auðvitað bara afleiðingar, sjúkdómseinkenni, nákvæmlega eins og verðbólgan, sem stjórnmálamennirnir þykjast ráðast gegn.
Vandi sjúkdómsins liggur dýpra og er margþættur. Stjórnmálamennirnir beita verðbólgunni til að auka völd sín í fjármálum þjóðarinnar. Þessi völd nota þeir til að rugla fjárstreymið í þjóðfélaginu, svo að framleiðni atvinnulífsins verður minni en ella.
Raunhæf lækning mundi annars vegar felast í rýrðum tökum stjórnmálamanna á fjármunum þjóðarinnar og hins vegar í gerbreyttu fjárstreymi í atvinnulífinu. Báðar leiðirnar tengjast á mjög áberandi hátt.
Stjórnmálamennirnir verða að sleppa tökum sínum á bönkum, sjóðum og öðrum fjárdreifingarstofnunum. Með því mundu þeir losna við freistingar þær, sem undanfarin átta ár hafa magnað verðbólguna meira en nokkur annar áhrifavaldur.
Jafnframt verða þeir að draga skipulega og hratt úr hefðbundnum landbúnaði á Íslandi, sem nú mergsýgur ríkissjóð og lánakerfið. Þeir eiga smám saman að leggja niður stuðning við hefðbundinn landbúnað og styðja menn fremur til að leggja stund á aðrar atvinnugreinar.
Ennfremur verða þeir umsvifalaust að stöðva moksturinn á ókynþroska fiski og vinna skipulega að því að fækka veiðiskipum niður í það mark, að hvert þeirra geti án rányrkju haft mjög mikinn afla í samanburði við sóknarkostnað.
Hagnaðinn af auðlindaskatti í sjávarútvegi og af samdrætti landbúnaðarútgjalda verða þeir að nota til að hlúa að iðnaði í landinu, til dæmis með því að byggja iðngarða, þar sem ung og óhörðnuð fyrirtæki geta þrifizt í lágri eða engri húsaleigu.
Um öll þessi atriði hafa verið settar fram ýtarlegar tillögur á opinberum vettvangi síðustu tvö árin. Þær miða að því að auka framleiðni núverandi atvinnuvega og byggja upp nýja sem gætu orðið arðsamir í framtíðinni.
Það er einmitt stöðug aukning á framleiðni atvinnulífsins, sem er sjálfur hornsteinn að velgengni íslenzka þjóðfélagsins og lífskjörum þjóðarinnar. Sú aukning felst í að ná stöðugt meiri árangri með stöðugt minni tilkostnaði og láta hann skila sér í bættum lífskjörum.
Stjórnmálamenn, sem þjarka vikum saman um, hvort taka eigi milljarð hér og færa þangað og færa síðan tvo milljarða til baka aftur, eiga heima í sandkassa, en ekki á opinberum vettvangi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið