Fjármál landbúnaðarins hafa verið til umræðu í tveimur leiðurum Vísis að undanförnu. Ástæðan er sú, að á næsta ári hyggst ríkið verja um fimm milljörðum króna af fé skattgreiðenda til niðurgreiðslna, uppbóta og beinna framlaga til landbúnaðarins. Má ljóst vera af upphæðinni, að kerfi þetta er komið út í mestu öfgar.
Neytendur hafa ekki gagn af kerfinu, því að innlendu landbúnaðarvörurnar eru, þrátt fyrir niðurgreiðslur, dýrari en innfluttar vörur væru. Og bændur hafa ekki gagn af kerfinu, því að þeir eru ein tekjulægsta stétt þjóðfélagsins, þrátt fyrir milljarðana fimm.
Tiltölulega auðvelt er að benda á vandann, en erfiðara er að finna framkvæmanlegar lausnir. Samt er nauðsynlegt að leggja mikla áherzlu á þessa leit, því að þjóðin hefur ekki lengur efni á að viðhalda hinu rotna kerfi.
Eitt af því, sem til greina kemur, er að bændum á erfiðum jörðum verði hjálpað til að bregða búi og koma undir sig fótunum annars staðar. Margir bændur vilja hætta búskap, en treysta sér ekki til þess, þar sem eignir þeirra eru næsta verðlitlar í sölu. Ef ríkið styddi þá myndarlega til að afla sér húsnæðis og endurmenntunar og greiddi tímabundið tekjutap þeirra, gætu þeir losnað úr ánauð sinni. Þessi fækkun bænda mundi draga úr þörfinni á uppbótum og niðurgreiðslum.
Önnur leið er að afnema niðurgreiðslurnar og láta verð landbúnaðarafurða vera í samræmi við tilkostnaðinn. Um leið yrði að sjálfsögðu að lækka skatta á láglaunafólki til jafns við hækkun matvælanna frá landbúnaðinum. Við þetta yrði verðkerfi landbúnaðarins réttara og einstökum greinum framleiðslunnar væri ekki lengur mismunað. Lambakjötið mundi ekki lengur einoka markaðinn, og nautakjöt, svínakjöt og hænsnakjöt yrði aftur seljanleg vara.
Þriðja leiðin er að stefna smám saman að innflutningi landbúnaðarafurða eftir því sem bændum fækkar og þéttbýlisbúum fjölgar og byrja þá á þeim vörum, sem óhagkvæmast er að framleiða hér heima. Markmiðið yrði þá, að íslenzki landbúnaðurinn sérhæfði sig smám saman í framleiðslu mjólkur og annarra afurða, sem erfitt eða ómögulegt er að flytja til landsins.
Fjórða leiðin er að velja þau landsvæði, sem bezt henta til framleiðslu þeirra afurða, sem hagkvæmastar eru í samanburði við innflutning og nota framlagakerfi ríkisins til að beina framleiðslunni til slíkra vildisjarða.
Sennilega yrði í senn að fara allar þessar leiðir og raunar fleiri. Þjóðin gæti þá smám saman losnað úr viðjum hinnar rotnu fjármögnunar landbúnaðarins. Neytendur fengju smám saman ódýrari innfluttar landbúnaðarvörur. Illa stæðir bændur fengju smám saman tækifæri til að bregða búi. Og grundvöllur skapaðist til mannsæmandi tekna af búskap á góðum jörðum, án þess að viðkomandi bændur þyrftu að lítillækka sig með því að þiggja árlega eina milljón hver úr hendi skattgreiðenda. Enda eru flestir bændur þannig gerðir, að þeir vildu manna fegnastir losna úr núverandi ölmusukerfi.
Jónas Kristjánsson
Vísir