Vandamál flokksblaðanna koma skýrt fram í grein, sem Vilmundur Gylfason menntaskólakennari skrifaði í Alþýðublaðið á miðvikudaginn. Þar segir m.a.:
“Kjarni málsins er hins vegar sá, að þar sem stjórnmálaflokkar eru beinir eða óbeinir útgáfuaðilar, þar hefur skapazt ákaflega óheilbrigt kerfi … Forustumenn í stjórnmálaflokkum hafa tekið á sig fjárhagsskuldbindingar, sem iðulega hafa stórskert athafnafrelsi þeirra – og gjarnan leitt þá inn í hið víðfeðma þagnarspil samtryggingakerfisins …
Þar að auki er einnig ljóst, að flokksblöð þjóna falskri sannleiksleit Þau eiga það gjarnan sammerkt að taka þátt í því að byggja upp heilsteypta mynd af stjórnmálaflokknum, sem þau eru fulltrúi fyrir. Þar sést hvorki hrukka né blettur, þar er engin ágreiningur, engin valdastreita.
Samkvæmt flokksblöðunum mora hinir flokkarnir hins vegar í ágreiningi, valdatogstreitu, og venjulegast eru skítahvatir á bak við gerðir einstaklinga þar. Og það sem kannski verra er: Flokksblöðin fjalla gjarnan um lögbrot og hvers konar fjármálaósóma hjá hinum. Þó hefur stórlega dregið úr slíku hin síðari ár: Þögnin er auðveldari. Þessi upplýsingamiðlun hefur orðið óendanlega hallærisleg.
Ritskoðun getur verið fólgin í fleiru en að birta eða birta ekki efni. Ritskoðun getur líka verið fólgin í uppsetningu efnis, staðavali í blaði. Ný blöð á blaðamarkaði hafa augljóslega notið þess meðal lesenda sinna, að þau hafa verið í kannski misjafnlega hóflegri uppreisn gegn lamandi og leiðinlegu flokkakerfi.
Kjallaragreinar … eru öfundsvert framtak í íslenzkum blaðaheimi. Menn gleyma því stundum, hversu lýðræðislegar slíkar greinar eru: Þetta er vettvangur, sem var ekki til fyrir nokkrum árum. Þar er enginn dómur lagður á efni eða innihald með fyrirsögn eða uppsetningu, en lesandanum látið slíkt eftir …
Annar kjarni þessa máls er sá, að það er einfaldlega ósæmilegt, að stjórnmálaflokkur sem slíkur standi í því að gefa út blað eða reka fyrirtæki af hvaða tagi, sem vera skal. Enda hafa þeir stjórnmálaflokkar, sem í slíku hafa staðið, þurft að sníkja fjármuni með auglýsingum eða með öðrum hætti. Slíkt felur í sér skuldbindingar, þegar til lengdar lætur …
Staðreynd mun það líka vera, að blaðrekstur hefur reynzt stjórnmálaflokkum svo þungur baggi, að það hefur ýtt þeim inn í hvers kyns óhreinlegt fjármálavafstur – skert starfsgetu þeirra og hlaðið undir vafasama fjármálamenn. Um slíkt þekkjum við fjölmörg dæmi …
Verður ekki fram hjá því litið, að flokksblöð eru óheiðarleg – þau starfa undir þrýstingi misviturra stjórnmálamanna. Þau ala á ímynduðum kostum sjálfs sín – og í tímans rás hafa neytendur raunar hafnað þessari hallærislegu framsetningu skoðana – góður gangur síðdegisblaðanna er engin tilviljun og ekki heldur samsæri peningamanna fyrst og fremst. Síðdegisblöðin eru einfaldlega betri blöð en flokksblöðin.”
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið