Upp með skurðhnífana

Greinar

Landflótti er hér svo auðveldur og orðinn svo útbreiddur, að til hreinna vandræða horfir, ef lífskjör okkar halda áfram að dragast aftur úr lífskjömm þjóða, sem við berum okkur saman við.

Einkum er það atgervisfólk, sem getur fengið verkefni í atvinnuleysislöndum nágrennisins, iðnaðarmenn, tæknimenn og menntamenn í þenslugreinum. Atgervisflóttinn er skæðasti þáttur landflótmns.

Við missum nú árlega út sem svarar einum Hornafirði umfram innflutning. Senn getur einn Hornafjörður orðið að einum Ísafirði og síðan einum Vestmannaeyjum, unz við blasir hrun sjálfstæðs þjóðskipulags hér á landi.

Landflóttann verður að stöðva. Það gerist bvorki með valdboði né með tilvísun til þjóðernisvitundar. Það gerist aðeins með því að efla lífskjörin hér til jafns við nágrannalöndin.

Lífskjörin geta hraðbatnað, ef stjórnvöld treystast til að breyta ramma atvinnuveganna. Landbúnaðinum þarf að létta af herðum skattgreiðenda og neytenda. Sjávarútveginn þarf á ný að gera að hinum arðbærasta í heimi. Og iðnað þarf að byggja upp í stórum stíl.

Þetta er hægara sagt en gert. Byggðasjónarmið og önnur félagsleg sjónarmið hamla gegn breyttum ramma landbúnaðar og sjávarútvegs. Og auknum og nýjum iðnaði munu vafalaust fylgja mjög dýr mistök. Samt þurfum við að skera á þessa hnúta.

Útflutningsuppbætur, niðurgreiðslur og beinir styrkir til landbúnaðar kosta skattgreiðendur nú um 30 milljarða á ári eða um 7 milljónir á hvert býli í landinu. Allt þetta verður að leggja niður, svo og sérstakar lánvetingar til landbúnaðar.

Hluta af sparnaðinum við slíka aðgerð er unnt að nota til að reisa í kaupstöðum og kauptúnum landsins iðngarða, þar sem ýmis iðnaður getur fengið leigulaust húsnæði. Hluta af sparnaðinum er einnig unnt að nota til að flytja inn tækni- og skipulagsþekkingu, iðnaðinum að kostnaðarlausu.

Auðvitað færi margt af þessari fyrirhöfn í súginn, eins og gerzt hefur í ýmsum iðnaðartilraunum Íslendinga. Sumt mun þó blómgast og veita góða atvinnu, bæði þeim, sem koma frá landbúnaðinum, og hinum, sem koma úr skólunum á næstu árum.

Í sjávarútvegi takmarka stjórnvöld aflann á rangan hátt. Þau beita ýmist hreinu kvótakerfí eða tímabundnu veiðibanni, sem hvort tveggja leiðir til óhagkvæms rekstrar og þar af leiðandi til lélegra lífskjara.

Í staðinn verða stjórnvöld að finna út, hve mikill brúttótonnafjöldi í skipum nægi til að ná þeim afla, sem fiskifræðingar mæla með. Síðan á að setja veiðileyfi á uppboð og selja hæstbjóðandi.

Þar með yrði sjávarútvegur aðeins stundaður af beztu skipstjórunum með beztu áhafnirnar á beztu skipunum, þeim sem ná mestum afla með minnstum tilkostnaði. Þessu fylgir þó það skilyrði, að gengi íslenzku krónunnar yrði að gefa frjálst, svo og aflamagn á skip.

Sú hætta er auðvitað á ferðum, að bæjarfélög með erfiðu atvinnuástandi muni yfirbjóða veiðileyfi. En það yrði þá gert á kostnað þeirra og íbúa þeirra, en ekki þjóðarinnar sem heildar.

Hagnaðinn af sölu veiðileyfa gæti ríkið notað á sama hátt og sparnaðinn af brottfalli stuðnings við landbúnaðinn, – til að byggja iðngarða og til að flytja tækniþekkingu inn í landið.

Landbúnaðurinn er ofsadýr atvinnubótavinna. Í sjávarútvegi er þegar nokkuð af duldu atvinnuleysi. Þessu fólki og ungu fólki þarf að finna verkefni í iðnaði. Kannski tekst það ekki, en það er þó eina leiðin til að hindra, að landflóttinn verði að landauðn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið