Merkilega langur vegur er frá skattaumræðum síðastliðins sumars að skattafrumvarpi því, sem ríkisstjórnin hefur í vetur lagt fyrir alþingi. Frumvarpið fjallar í rauninni um allt önnur atriði en þau, sem vöktu sem mesta reiði skattgreiðenda í sumar.
Þá tóku menn eftir því betur en nokkru sinni fyrr, að ótrúlega margir efna- og umsvifamenn komast hjá því að borga skatta. Hér í Dagblaðinu voru dag eftir dag birtir langir listar upp úr skattskrám, þar sem bornir voru saman Jón og séra Jón.
Annað versta gatið á skattakerfinu virtist vera fólgið í möguleikum manna til að blanda saman einkarekstri heimila sinna og atvinnurekstri í eigin nafni. Bókhaldslegt tap af atvinnurekstri var notað til að komast hjá því að greiða skatta af tekjum, sem notaðar voru til einkaneyzlu.
Hitt versta gatið á skattakerfinu virtist vera fólgið í möguleikum einyrkja, einkum í byggingaiðnaði, til að semja við viðskiptavini sína um, hvernig gefa skuli upp til skatts. Þetta er auðveldast, þar sem einn og sami maðurinn er atvinnurekandi og starfsmaður, bókhaldari og gjaldkeri.
Fleiri atriði skattalaga voru misnotuð, svo sem ýmsir frádrættir, einkum vaxtafrádráttur. Einnig skattfrelsi þess söluhagnaðar, sem er umfram verðbólgu eða byggist á óverðtryggðu lánsfé.
Svo virðist hins vegar sem höfundar skattafrumvarpsins og stjórnvöld hyggist lítið sem ekkert gera í þessum efnum, heldur nota bara tækifærið til að auka skattbyrðina á þeim, sem þegar borga mikla skatta. Það er ekki reynt að skattleggja hina fínu skattleysingja, heldur misþyrma þeim, er hafa mælanlegar tekjur á skattskýrslum.
Það er alveg nýtt, ef útivinna giftra kvenna er orðin meiri háttar böl í þjóðfélaginu. Hinn fyrri frádráttur vegna slíkra tekna var ef til vill óhóflega mikill. En nýjungar frumvarpsins í því efni taka sáralítið tillit til margvíslegs kostnaðar, sem er samfara slíkum tekjum.
Það er líka alveg nýtt, ef húsbyggingar ungs fólks eru orðnar meiri háttar böl í þjóðfélaginu. Frumvarpið gerir ráð fyrir niðurskurði vaxtafrádráttar þessa fólks um þrjá fjórðu hluta.
Menn höfðu búizt við, að sett yrði þak á vaxtafrádrátt, þannig að innan þess mundu rúmast vextir af eðlilegum byggingaframkvæmdum hverrar fjölskyldu, en ekki vextir af tugmilljóna umsvifum fjáraflamanna.
Samkvæmt frumvarpinu á ungur húsbyggjandi, sem skuldar fjórar milljónir og borgar 600.000 í vexti, aðeins að fá 150.000 króna vaxtafrádrátt í stað 600.000 króna. Sá sem skuldar hins vegar áttatíu milljónir í ódýrum lánum vegna hótela, flugfélaga, laxveiðiítaka og ferðaskrifstofa, fær sama hlutfall í frádrátt og sparar sér persónulega milljónir í skatti.
Hið nýja frumvarp er vart mælanlegt skref í átt til aukins réttlætis í skattamálum. Fyrst og fremst eru þar á ferðinni nýjar álögur, sem sigla undir fölsku flaggi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið