Ríkisstjórnin gerði rétt í að beygja sig fyrir kröfum alþýóusamtaka um, að skattahækkunin, er samþykkt var á Alþingi í fyrrinótt, kæmi að fullu fram Í kaupgreiðsluvísitölu.
Það var heldur ekkert óeðlilegt við, að ríkisstjórnin skyldi í upphafi ætlast til, að aukinn rekstrarkostnaður Landhelgisgæzlunnar skyldi ekki hækka kaupgjaldið og auka verðbólguna í landi. Sú stefna var studd eðlilegum rökum um þjóðhollustu.
En það verður stundum að gera fleira en gott þykir. Ríkisstjórnin og forsætisráðherra hennar verða ekki minni fyrir þá sáttaleið, sem felst í hinni endanlegu afgreiðslu frumvarps ríkisstjórnarinnar. Það helzt þó friður.
Staðreyndin er sú, að ríkisstjórnin er veik en Alþýðusambandið sterkt um þessar mundir. Undanhald ríkisstjórnarinnar í þessu máli er dæmi um það. Þetta er afleiðing þess, að ríkisstjórnin hefur haldið illa á málum á undanförnum mánuðum en Alþýðusambandið vel.
En þar með er ekki sagt að Alþýðusambandið hafi farið vel með vald sitt að þessu sinni. Það er ekki sjálfgefið, að ríkisstjórnin hafi alltaf rangt fyrir sér, þótt hún hallist fremur í þá áttina.
Lífskjörin í landinu batna hvorki né versna . við tilfæringar með kaupgreiðsluvísitölu. Lífskjör verða ekki búin til með bókhaldi eða hrossakaupum. Þau byggjast hins vegar á krafti atvinnulífsins og þau byggjast á, að samneyzlu og fjárfestingu ríkisins sé haldið í hófi.
Það er í rauninni fróðlegt til umhugsunar, að þessi feikna hávaði skuli hafa orðið út af tiltöluloga lítilvægu atriði í annars forkastanlegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Ríkisstjórnin valdi í frumvarpinu sína gömlu leið að spara ekki við sig, heldur heimta nýja skatta. Sú leið rýrir auðvitað lífskjörin í landinu, þar sem aukin sneið ríkisins minnkar sneiðar atvinnulífs og almennings af þjóðarkökunni.
En svona er nú pólitíkin á ísa köldu landi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið