Í landhelgismálinu standa Íslendingar nú andspænis tvenns konar nýrri hættu. Í fyrsta lagi gera ýmsir gamlir andstæðingar 200 mílna efnahagslögsögunnar harða hríð á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að óskertu valdi strandríkja á fiskveiðum innan lögsögu þeirra. Í öðru lagi er svarinn andstæðingur 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslendinga, Anthony Crosland, orðinn utanríkisráðherra Bretlands.
Gegn síðari hættunni getum við lítið annan gert en beðið og séð. Crosland er þingmaður Grimsby og hefur vakið athygli fyrir einstrengingsleg ummæli um 500 ára hefðbundinn rétt Breta til að veiða upp í landsteina við Ísland. Togaraútgerðin í Grimsby mun vafalaust fylgjast vel með því, að Crosland standi sem utanríkisráðherra við sem mest af stóru orðunum.
Sendinefnd Íslands á hafréttarráðstefnunni getur hins vegar reynt að hamla gegn hættunni á þeim vettvangi og gerir það ósleitilega. Hans G. Andersen, formaður sendinefndarinnar, skýrði sjónarmið Íslands á ljósan hátt á almennum fundi ráðstefnunnar í síðustu viku. Hann sagði m.a.:
“Sendinefnd Íslands telur, að efnahagslögsöguhugtakið feli í sér raunhæfa efnahagslega lögsögu yfir auðlindum, þar sem strandríkið hefur fullveldisrétt yfir auðlindum á svæðinu, bæði ólífrænum og lífrænum.
Að því er varðar lífrænar auðlindir, mun það, sem umfram er, þ.e. sá hluti leyfilegs aflamagns, sem strandríkið getur ekki hagnýtt, verða til afnota fyrir önnur ríki á grundvelli sérstakra samninga, sem gerðir yrðu um það efni. Þessar reglur verða að vera skýrar og ljósar, þannig að engar deilur um þær geti risið.
Það er hins vegar einnig ljóst, að mörg ríki, sem að vísu segja, að þau styðji hugtakið efnahagslögsaga, gera ýmsar tilraunir til að veikja sjálft hugtakið. Í því sambandi vilja þau opna möguleika á því að vefengja ákvarðanir strandríkisins …
Slíkar aðfarir mundu í raun gera hugtakið efnahagslögsaga villandi og þýðingarlaust og mundu í framkvæmd bjóða heim hvers konar tilraunum til að grafa undan hugtakinu og eyðileggja þar með meginstoð í heildarlausninni.
Þess vegna verða ákvarðanir strandríkisins um auðlindir á svæðinu að vera endanlegar.”
Engan veginn er ljóst, hver verður niðurstaðan af stappinu á hafréttarráðstefnunni. Fylgjendur útvatnaðrar efnahagslögsögu eru að vísu í miklum minnihluta, en geta samt haft mikil áhrif þegar gerðar eru tilraunir til að sætta hin ólíku sjónarmið. Alténd er ljóst, að enn er langt í niðurstöðu ráðstefnunnar.
Við verðum því að gera ráð fyrir löngu þorskastríði á miðunum. Vió verðum einnig að gera ráð fyrir því, að hættan aukist á því að brezku skipherrarnir missi stjórn á sér. Þegar harðlínumaður er orðinn utanríkisráóherra Breta, er sennilegt, að minna verði um aðhald með skipherrunum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið