Um “dýrkun yfirborðsmennsku”.

Greinar

Áramótin hafa orðið stjórnmálamönnum og fjölmiðlum tilefni til að meta stöðu ríkisstjórnarinnar. Sýnist þar sitt hverjum eins og við er að búast. Flestir eru sammála um, að fylgi hennar hafi minnkað. En menn eru ekki sammála um, hvort þetta sé sanngjörn þróun eða ekki.

Morgunblaðið telur í Reykjavíkurbréfi siðasta sunnudags, að gagnrýnin á ríkisstjórnina beinist ekki að gerðum hennar, heldur framkomu hennar út á við. “Fólki þykir ráðherrarnir ekki gefa nógu skeleggar yfirlýsingar í fjölmiðlum”, segir blaðið. Þetta er ákaflega yfirborðsleg kenning, sem stangast á við staðreyndir.

Öllu nær kjarna málsins kemst Ólafur Jóhannesson í áramótagrein sinni, þar sem hann segir m.a.: “Menn segja gjarnan, að stjórnin sé ekki nógu ákveðin og einbeitt og of svifasein og deig við að beita valdi”. Ólafur gerir þó of mikið úr því, að almenningur heimti valdbeitingu af hálfu rikisstjórnarinnar. Menn vilja, að stjórnin sé ákveðin og einbeitt og hvorki svifasein né deig. Í þessu þarf ekki að felast nein valdbeitingarstefna.

Ólafur bendir réttilega á það ríkisstjórninni til varnar, að lagni geti verið jafnmikils virði og festa. Og rikisstjórnin hefur óneitanlega á stundum sýnt lagni við meðhöndlun ýmissa þrýstihópa, þótt líka megi túlka þá lagni sem uppgjöf gagnvart fjárkúgun.

Rikisstjórnin hefur efnislega og ýtarlega verið gagnrýnd fyrir að vera svifasein í landhelgismálinu, einkum eftir ásiglinguna á Þór. Hún hefur efnislega og ýtarlega verið gagnrýnd fyrir samninginn við Vestur-Þjóðverja. Þegar menn eru að biðja um einbeitni og ákveðni á þessu sviði, eru menn ekki að biðja um “skeleggar yfirlýsingar í fjölmiðlum”. Menn eru að biðja um kunnáttu i taflmennsku alþjóðastjórnmála.

Rikísstjórnin hefur efnislega og ýtarlega verið gagnrýnd fyrir að vera svifasein i efnahagsmálum. Hún er gagnrýnd fyrir að hafa látið reka á reiðanum frá einni bráðabirgðaaðgerð til annarrar og að hafa ekki haft kjark til neinna umtalsverðra umbóta af varanlegu tagi. Þegar menn eru að biðja um einbeitni og ákveðni á þessu sviði, eru menn ekki að biðja um “skeleggar yfirlýsingar i fjölmiðlum”. Menn eru að biðja um kunnáttu í meðferð efnahagsmála.

“Lagni” rikisstjórnarinnar felst mest í notkun rikissjóðs til að kaupa ófriðlega þrýstihópa af höndum hennar. Efnahagsstjórn hennar hefur þar á ofan þjónað undir ríkisbáknið á kostnað lífskjara almennings og afkomu atvinnuveganna. Það þarf einstaka grautarhugsan Morgunblaðsins til að halda því fram, að gagnrýni af þessu tagi sýni “dýrkun yfirborðsmennsku” af hálfu almennings og fjölmiðla.

Verst væri þó, ef ríkisstjórnin tryði Morgunblaðinu og rambaði áfram forustulaust í trausti þess, að það væru almenningur og fjölmiðlar, sem hefðu rangt fyrir sér.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið