Sjómaður, sem siglir með afla sinn, fær í erlendri höfn tvöfalt hærra verð en hann fær i sinni heimahöfn. Ef bóndi hins vegar sigldi með afurðir sínar, fengi hann í erlendri höfn aðeins hálft verð á við það, sem hann fær í kaupfélaginu.
Þessi samanburður sýnir i hnotskurn, hve lítið er að marka verðkerfið hér á landi. Millifærslur hins opinbera eru orðnar svo miklar, að enginn veit lengur, hvað neitt kostar. Verðmyndun í landinu er orðin að bókfærsluatriði hins opinbera.
Frá upphafi verzlunar i heiminum og til þessa dags hefur víðast hvar í heiminum ríkt sjálfvirkt verðmyndunarkerfi markaðsins. Í slíku kerfi er greitt fyrir árangur starfsins en ekki fyrirhöfnina. Slíkt kerfi tryggir, að framfarir og uppfinningar fara um heiminn eins og eldur í sinu.
Þetta kerfi á meginþátt i hraðri útbreiðslu afleiðinga iðnbyltingarinnar. Á einni öld lækkaði hlutur landbúnaðar i atvinnuskiptingunni úr 80% í 3% í nokkrum mestu iðnríkjum heims, og eru þetta samt þau ríki, sem helzt allra eru aflögufær með landbúnaðarafurðir.
Við tengjumst þessu alþjóðlega kerfi í sölu fiskafurða okkar á erlendum markaði, þar sem við keppum við margar aðrar fiskveiðiþjóðir. Verðið, sem við náum, er svo hátt, að það stendur undir nútímalífi og nútímalúxus Íslendinga að verulegu leyti.
Sala fiskafurðanna er eiginlega eina sambandið, sem við höfum við eðlilegt verðmyndunarkerfi. En hinu séríslenzka bókhaldskerfi er kippt inn í myndina um leið og dollurunum fyrir fiskinn er breytt í krónur. Og síðan fylgir á eftir endalaus röð af millifærslum.
Gengi íslenzku krónunnar er skráð nógu hátt til þess, að fiskiðnaðurinn skrimti á núlli í reikningum Þjóðhagsstofnunarog geti einungis greitt mjög lágt fiskverð, sem miðað er við, að útgerðin skrimti á núlli í reikningum Þjóðhagsstofnunar.
Hvorki fiskverð né gengi er í neinu sambandi við alþjóðleg markaðsverð. Hvorki fiskiðnaður og útgerð né starfsfólk þessara greina hefur tekjur i samræmi við afköst sín i alþjóðlegum samanburði. Mismunurinn er tekinn með millifærslum til að halda uppi ýmsum öðrum þáttum þjóðfélagsins.
Ríkið stjórnar fjárfestingunni með spariskírteinum, sem fjármagna opinbera sjóði forréttindagreina. Verðlagsráð af ýmsu tagi reikna vísitölur og ráða verðlagi í landinu. Mikill og vaxandi hluti af tekjum þjóðarinnar er notaður í mismunandi þarfa samneyzlu af ýmsu tagi.
Einna fullkomnast er bókfærslukerfið i verðmyndun landbúnaðarafurða. Þær eru verðlagðar eftir fyrirhöfn, en ekki árangri. Ákveðið er, að tekjur bænda skuli sem næst fylgja tekjum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna. Síðan er það bókbaldsatriði, hve hátt verð er sett á hverja afurð.
Þessi séríslenzku bókhaldskerfi draga úr eðlilegum straumi fjármagns og starfskrafta til hagkvæmustu greinanna og eru hemill á framleiðni og hagþróun í landinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið