Tvö góð ráð ódýr

Greinar

Með auðlindaskatti í sjávarútvegi og afnámi forréttinda landbúnaðarins er unnt að breyta Íslandi úr láglaunasvæði Í hálaunasvæði á ekki mjög löngum tíma. Með þessum tveimur aðgerðum samræmdum er unnt að gera margt í senn, útvega fé til uppbyggingar nýs iðnaðar úti um allt land, létta sköttum af almenningi og gera atvinnuvegunum kleift að greiða mun hærri laun.

Leggja ber niður 1.800.000.000 króna uppbætur landbúnaðarafurða og 5.100.000.000 króna niðurgreiðslur landbúnaðarafurða, því að slíkar greiðslur eru í hæsta máta óeðlilegar í markaðsþjóðfélagi. Leggja ber niður 950.000.000 króna styrki til landbúnaðar og 390.000.000 króna styrk til Stofnlánasjóðs landbúnaðar, því að ástæðulaust er að hvetja til enn frekari útþenslu atvinnugreinarinnar. Og leggja ber niður 130.000.000 króna styrk til Búnaðarfélags Íslands, því að stéttir eiga sjálfar að kosta stofnanir sínar.

Það, sem talið er upp hér að ofan, jafngildir 8.370.000.000 króna sparnaði ríkisins á ári á núverandi verðlagi. Sá sparnaður gerir kleifa lækkun söluskatts úr 20% í 15%, sem er neytendum mjög til hagsbóta, af því að það gerir mun meira en að vega upp á móti afnámi niðurgreiðslanna.

Jafnframt þarf að taka upp þá stefnu að hleypa ekki fleiri né stærri veiðiskipum á einstök veiðisvæði við landið en svo, að þau geti öll haft mokafla og afbragós afkomu. Þessar veiðar má bjóða út hæstbjóðandi á innanlandsmarkaði. Auðlindaskatturinn felst í tekjum ríkisins af þessari veiðileigu.

Aflinn yrði hinn sami og áður en á mun færri skip, á minni olíu og öðrum tilkostnaði og á mun færri sjómenn. Þetta mundi leiða til stórbættra tekna sjómanna og svo mikils hagnaðar útgerðarinnar, að hún gæti samanlagt borgað auðlindaskatt upp á 5.000.000.000 krónur til að byrja með og meira síðar, þegar skömmtun skipa inn í veiðisvæðin hefur hleypt nýjum þrótti í fiskistofnana.

Þessar 5.000.000.000 krónur á ári, sem fljótlega yrðu 10.000.000.000 krónur á ári, er svo rétt að nota til að byggja upp atvinnutækifæri í nýjum iðnaði fyrir þá, sem missa atvinnu í landbúnaði og sjávarútvegi og fyrir þá, sem koma úr skólunum inn á vinnumarkaðinn. Þessi iðnaður á bæði að rísa í strjálbýlinu og á þeim stöðum, þar sem fjölmennustu hóparnir koma inn á vinnumarkaðinn.

Milljarða auðlindaskattsins má nýta til þessara þarfa með því að lána þá til iðnaðar hér á landi eins og gert er í öðrum löndum eða eins og gert er hér á landi í sjávarútvegi og landbúnaði. Við eigum ónotuð ótal tækifæri í smáum iðnaði og miðlungsiðnaði, sem geta reynzt jafnarðbær og hliðstæður iðnaður í nágrannalöndunum, ef fjármögnunin er í lagi. Jafnframt er með slíkri fjármögnun unnt að efla kaupmátt starfsfólks Í iðnaði.

Þessar tvær aðgerðir valda ekki aðeins lægri sköttum og hærri tekjum almennings. Þær gera líka atvinnulífið í heild straumlínulagaðra og hæfara til að standa undir hátekjuþjóðfélagi hér á landi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið