Tvö góð fiskirök

Greinar

Mikil ofveiði er stunduð á Íslandsmiðum þessi árin. Til eru óyggjandi niðurstöður rannsókna, sem sýna, að þorskfiskastofnarnir eru á hraðri niðurleið. Þessi ofveiði er svo alvarleg, að við þyrftum helzt að draga úr veiði okkar um tíma jafnvel þótt við sætum einir að allri veiði á Íslandsmiðum.

Við þurfum 200 mílna landhelgi til að ná tökum á veiðimagninu og tryggja viðgang íslenzkra fiskistofna næstu áratugina. En við getum ekki stóraukið sókn okkar, þótt við öflum okkur fyrst 50 og síðan 200 mílna landhelgi. Við verðum þvert á móti að draga úr sókn okkar um tíma.

Eftir sigur okkar í 50 og 200 mílna málunum verður þetta eitt erfiðasta vandamál okkar Freistingarnar verða miklar og margir munu loka eyrunum fyrir ráðum fiskifræðinga. Þess vegna er nauðsynlegt, að vísindamennirnir verði sem valdamestir við framkvæmd friðunar. Þegar við erum orðnir herrar í eigin húsi, megum við til með að gæta hússins vel.

Virk friðun og efling fiskistofna er eina siðferðilega afsökunin, sem við höfum á alþjóða.vettvangi fyrir því að hrekja erlendar þjóðir burt af Íslandsmiðum. Við getum bent á, að alþjóðlegt samstarf eins og í Norðaustur-Atlantshafsnefndinni er allt of seinvirkt til að koma að gagni við friðun. Einhliða aðgerðir okkar séu mun virkari. En þá verðum við líka að standa okkur og ekki éta okkur sjálfa út á gaddinn í hamslausri veiðimennsku.

Við erum sérfræðingar í bátaútgerð. Sjómenn okkar og útgerðarmenn hafa góðar tekjur án þess að njóta ríkisstyrks. Brezkir og vestur-þýskir sjómenn hafa síðri tekjur og útgerðarfyrirtæki þeirra eru rekin með halla þrátt fyrir ríkisstyrki. Hér er bátaútgerðin blómi atvinnulífsins, en þar er togaraútgerðin baggi á atvinnulífinu.

Nú eru tímar alþjóðlegrar verkaskiptingar og síaukinnar heimsverzlunar. Beggja vegna Atlantshafsins draga þjóðir úr óarðbærum atvinnu vegum sínum og flytja heldur inn viðkomandi vörur. Þær eru greiddar með tekjum af arðbærri framleiðslu, sem er útflutningsvara. Það væri í samræmi við þessa stefnu, að Bretar og Vestur-Þjóðverjar viðurkenndu, að fiskveiðar á Íslandsmiðum væru sérgrein Íslendinga, alveg eins og smíði Kortína og Fólksvagna er sérgrein Breta og Þjóðverja.

Þetta er hin efnahagslega röksemd fyrir útfærslu fiskveiðilandhelginnar, sem dugir okkur á alþjóðlegum vettvangi. Hún er einfaldlega sú, að Bretar og Vestur-Þjóðverjar geta fengið fisk til neyzlu á ódýrari hátt með því að kaupa hann af okkur heldur en að veiða hann sjálfir.

Þar við bætist fiskskorturinn í heiminum, sem veldur því, að stórþjóðirnar verða að tryggja sér fisk til neyzlu. Það gera þær ekki með tímabundinni rányrkju á fjarlægum miðum, því að það er skammgóður vermir. Þær gera það betur með því að semja við fiskveiðiþjóðir um árvissan innflutning.

Gagnvart umheiminum höfum við því tvær veigamiklar röksemdir fyrir útfærslu auðlindalögsögunnar út í 50 og 200 mílur. Annars vegar er sú siðferðilega, friðunin, sem raunar er líka efnahagsleg, því að umheimurinn þarf á því að halda, að fiskistofnarnir eflist. Hins vegar er efnahagslega röksemdin um eðlilega verkaskiptingu þjóða eftir getu sinni á hverju sviði. Þessum rökum þurfum við nú að koma á framfæri af alefli.

Jónas Kristjánsson

Vísir