Tvíeggjuð drottnunarstefna

Greinar

Ríkisstjórnin hefur um tveggja ára skeið reynt að spilla fjárhag Reykjavíkur og ekki skirrzt við að valda öðrum sveitarfélögum búsifjum í leiðinni. Með skattalögum hefur hún belgt út ríkisbáknið og saumað að sveitarfélögum. Einnig hefur hún leyft viðstöðulausar hækkanir á opinberri þjónustu ríkisins, en harðneitað hækkunum á þjónustu sveitarfélaga. Þannig hefur hún getað teflt, þar sem hún hefur vald til að ákveða verðlag á öllum vörum og þjónustu.

Þessi rómverska drottnunarstefna ríkisstjórnarinnar hefur komið hart niður á hitaveitu og rafmagnsveitu Reykvíkinga. Báðar þessar veitur skortir fjármagn til að veita viðskiptavinum sínum meira öryggi yfir vetrartímann. Ef verðlag þessarar þjónustu hefði fylgt öðru verðlagi í landinu, ættu veiturnar nú ekki erfitt með að bæta þjónustuna. En í þess stað hefur stefnt til vandræða og orkuskorts í báðum veitunum, ríkisstjórninni til nokkurrar ánægju.

Magnús Kjartansson orkuráðherra sá í hillingum, að Reykvíkingar yrðu í vetur fyrir óþægindum vegna þessarar þróunar og mundu láta það koma niður á meirihluta borgarstjórnar, þegar gengið yrði til kosninga í vor. Hann taldi líklegt, að gamla ævintýrið mundi gerast einu sinni enn, að bakari yrði hengdur fyrir smið.

Olíuskorturinn í heiminum og tvöföldunin á verði olíu til húsahitunar kom orkuráðherra og ríkisstjórn í opna skjöldu. Menn um allt land sáu og skildu, að nú var ekki rétti tíminn til að draga úr hitaveituframkvæmdum. Þingmenn í Reykjaneskjördæmi urðu fyrstir til að túlka þetta sjónarmið á alþingi.

Hitaveita Reykjavíkur hafði tekið að sér að leggja hitaveitu í Kópavog og Garðahrepp með því skilyrði, að hún fengi að búa við sómasamlega afkomu. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar stefndu þessu samstarfi í voða og þingmenn Reykjaneskjördæmis kröfðust skýringa. Ríkisstjórnin sá, að henni mundi hefnast fyrir að ganga svona langt í aðgerðum sínum og gaf skyndilega eftir 12% hækkun hitaveitugjalds.

Jafnframt lét hún á sér skilja, að frekari hækkun á verði hitaveitu og rafmagnsveitu yrði ekki leyfð, jafnvel þótt fyrirsjáanleg sé gífurleg verðbólga á þessum vetri. Þjóðviljinn hefur byrjað mikla herferð gegn lántökum rafmagnsveitunnar og kallar þær kosningavíxla. Eru þessar lántökur þó neyðarráðstöfun, sem fylgir í kjölfar þess, að ríkisstjórnin hefur ekki leyft eðlilegt verð á rafmagni. Hún hefur jafnvel verið svo ósvífin að hækka verulega verð á rafmagni frá Landsvirkjun til rafmagnsveitunnar án þess að leyfa veitunni neina hækkun á því sama rafmagni.

Ríkisstjórnin er á hálum ís í þessari herferð sinni gegn Reykjavík og öðrum sveitarfélögum. Það er ástandið í orkumálum heimsins, sem hefur gert herferðina tvíeggjaða. Landsmenn sjá nú, hve nauðsynlegt er að hraða nýtingu innlendra orkugjafa, bæði jarðhita og vatnsafls. Menn sjá, að í stað olíu til húsahitunar verður að koma hitaveita í þéttbýli og rafhitun í strjálbýli.

Á slíkum tímum getur ríkisstjórnin ekki staðið í einkastyrjöld gegn framkvæmdum sveitarfélaga í hitaveitu og rafmagnsveitu.

Jónas Kristjánsson

Vísir