Tvíeggjaður milliliður

Greinar

Þegar Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra setti Magnús Torfa Ólafsson til að gegna stöðu blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar, var hann að ráða í embætti, sem setið hafði laust um skeið. Hann þurfti því ekki að leita samþykkis alþingis eða fjárveitingarnefndar þess.

Hins vegar sýndi Ólafur ráðherrum samstarfsflokkanna megna fyrirlitningu með því að gefa þeim ekki kost á að fjalla um málið. Hann hafði engin samráð við þá og lét þá standa andspænis orðnum staðreyndum. Þannig láta menn ekki, nema einræðishneigð þerra sé komin á hátt stig.

Forsætisráðherra sagði á alþingi á mánudaginn, að hið endurvakta embætti væri nauðsynlegt til að vera tengiliður “stjórnvalda annars vegar og fjölmiðla og almennings hins vegar”. Taldi hann eðlilegt, að fjölmiðlar fögnuðu þessu framtaki.

Í rauninni eru blaðafulltrúar tvíeggjað vopn. Stundum hafa þeir það hlutverk að sá röngum upplýsingum og villa um fyrir almenningi. Í öðrum tilvikum hafa þeir hvorki vald né vitneskju til að geta tjáð sig á marktækan hátt á opinberum vettvangi.

Algengast er þó, að blaðafulltrúar séu ráðnir til að mynda eins konar múr milli umbjóðenda sinna og almennings. Slíku hlutverki gegndi til dæmis Björn Bjarnason sem skrifstofustjóri Geirs Hallgrímssonar. Við slíkar aðstæður eru áhrif blaðafulltrúans gagnstæð því, sem Ólafur Jóhannesson hélt fram.

Að meðaltali hafa íslenzkir blaðamenn slæma reynslu af blaðafulltrúum, ekki vegna blekkinga, heldur vegna valda- og vitneskjuleysis þeirra annars vegar og dyravarðarhlutverks þeirra hins vegar.

Í fæstum tilvikum geta blaðafulltrúar svarað spurningum blaðamanna. Þeir vita ekki nógu mikið um ákvarðanir í stofnunum sínum og fyrirtækjum. Og viti þeir eitthvað, hafa þeir ekki vald til að tjá sig um málið.

Þeir verða yfirleitt að bera spurningar blaðamanna til yfirmanna sinna og flytja síðan svörin til baka. Niðurstaðan er sú, að embætti þeirra sparar yfirmönnunum ekki tíma, en eykur fjarlægðina frá þeim til almennings um einn millilið.

Íslenzkt þjóðfélag er ekki svo fjölmennt, að mikil þörf sé fyrir slíka milliliði. Hér á landi er siðvenja, að ráðherrar jafnt sem forstjórar séu fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust til viðtals.

Margir vinsælustu stjórnmálamenn landsins eru jafnan reiðubúnir að svara spurningum blaðamanna fyrirvaralaust. Þeir telja, að með slíkum hætti hafi skoðanir þeirra greiðastan aðgang að almenningi.

Sumir þeirra eru fljótir að hringja sjálfir, ef ekki er hringt í þá. Þannig sýna þeir lofsvert næmi fyrir almenningi, – skilning á því, að stjórnmálamaður þarf í sífellu að kynna persónu sína, skoðanir og gerðir.

Missagnir, sem stundum verða á þessari leið, mundu magnast við tilkomu nýs milliliðs, auk þess sem hinn persónulegi þáttur mundi rýrna að mun. Blaðafulltrúinn verður fljótlega að múr, sem veitir stjórnmálamanninum tímabundin grið, en kemur honum síðan í koll í næstu kosningum.

Ástæða er til að vona, að Magnús Torfi Ólafsson og ráðherrar hans átti sig á kostum og göllum embættisins og reyni að gera hið bezta úr vandasömu verkefni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið