Tvíbentur atvinnuvegur

Greinar

Þótt undarlegt megi virðast, borgum við með erlendum ferðamönnum, sem leggja leið sína hingað. Ríkið greiðir stórfé fyrir þær kartöflur og kindakjöt, mjólk og smjör, sem þeir nota hér á landi. Þeir njóta góðs af kosningaveizlu ríkisstjórnarinnar og sleppa við að borga kostnaðinn, því að þeir eru ekki skattgreiðendur hér á landi.

Þetta er gott dæmi um, hversu fáránlegar niðurgreiðslur eru. Þær setja verðmætamat úr skorðum og aflaga neyzluvenjur fólks. Og þær draga úr þjóðhagkvæmni ferðamannaþjónustu sem atvinnugreinar.

Þrátt fyrir þessar meðgjafir fer ferðamönnum fækkandi um þessar mundir. Opinberar tölur sýna, að færri ferðamenn hafa komið fyrstu mánuði þessa árs en á sama tíma í fyrra. Er þetta í fyrsta skipti í manna minnum, að ferðamönnum fjölgar ekki milli ára.

Þessi samdráttur hefur vitanlega alvarleg áhrif á afkomu ferðamannaþjónustunnar. Flugfélögin búa við tiltölulega lélega sætanýtingu. Og hótel, einkum úti á landi, eru rekin með miklu tapi vegna óvenju fárra ferðamanna. Einkum eru þeir illa settir, sem komið hafa upp nýjum og glæsilegum hótelum og hafa þunga skuldabagga á bakinu.

Ástæðan fyrir þessum samdrætti er sögð verðbólgan, sem er meiri á Íslandi en í nokkru öðru landi Evrópu. Erlendir ferðamenn hafa hreinlega ekki efni á að ferðast um landið og greiða fyrsta flokks verð fyrir fimmta flokks mat.og þjónustu.

Ferðamannaþjónustan er að þessu leyti á sama báti og útflutningsiðnaðurinn. Verðbólgan leikur allar atvinnugreinar grátt, en engar þó verr en einmitt þessar tvær.

Sumir hafa hvatt til þess, að þjónustufyrirtæki eins og hótel taki saman höndum um að færa niður verð þjónustu sinnar. Slíkt er vitanlega tvíeggjað. Það getur komið fyrirtækjunum í fjárhagslega úlfakreppu og stuðlar að því, að launum sé haldið niðri í ferðamannaþjónustu. Við sjáum þetta böl við strendur Miðjarðarhafsins og viljum ekki flytja það hingað heim.

Tilgangur íslenzkra atvinnuvega er að veita þjóðinni góð og sífellt batnandi lífskjör. Ef framtíð atvinnuvegar eins og ferðamannaþjónustu, veltur á því, að lífskjörum starfsfólksins sé haldið niðri, er kominn til sögunnar vítahringur, sem engum gagnar.

Við verðum einfaldlega að sætta okkur við þá staðreynd, að íslenzk ferðamannaþjónusta er ekki samkeppnishæf. Við verðum líka að sætta okkur við, að hún er sveiflubundinn atvinnuvegur, sem getur seint orðið undirstöðuatriði í þjóðarbúinu. Hann er hins vegar góður með öðrum atvinnuvegum, ef við treystum ekki um of á hann.

Bandarískt ráðgjafarfyrirtæki í ferðamálum lagði í fyrra til, að Íslendingar legðu í þeim efnum höfuðáherzlu á að reisa 200 herbergja hótel með ráðstefnuaðstöðu í Reykjavík. Á þann hátt mætti nýta þá staðreynd, að Ísland er í þjóðbraut milli heimsálfa, að aragrúa erlendra samtaka vantar Ísland í ráðstefnusafn sitt og að þátttakendurnir eru mun fjársterkari en aðrir ferðamenn. Þetta er skynsamlegt ráð miðað við aðstæður hér á landi.

Jónas Kristjánsson

Vísir