Í hinum athyglisverðu trúmáladeilum, sem einkennt hafa ýmsa fjölmiðla að undanförnu, felst veigamikið uppgjör milli tveggja öflugra sjónarmiða í kristinni kirkju.
Annars vegar er töluverður hluti hinna eldri presta, sem heldur fram hinni svonefndu nýguðfræði, er þótti mjög frjálslynd á.sínum tíma og rúmar m.a. spíritismann innan sinna marka. Þessi stefna hefur um langt skeið verið á hægu undanhaldi innan kirkjunnar. Biskupsembættið hefur verið henni andsnúið og kennarar guðfræðideildar háskólans ekki síður.
Flestir þeir, sem lokið hafa prófi frá guðfræðideildinni á síðustu árum, eru mótaðir af andstöðunni við hina gömlu nýguðfræði. Þeir fylgja því sem stuðningsmennirnir kalla “hinn hreina tón” og andstæðingarnir “grallaragaul”.
Mikið vatn er runnið til sjávar, síðan Haraldur Níelsson var einn helzti hugmyndafræðingur íslenzkrar kirkju. Hin brezku spíritistaáhrif frá hans tíma fara þverrandi og skandinavísk áhrif hafa sótt á í staðinn.
Forustumaður hinna ungu presta er séra Heimir Steinsson, skólameistari lýðháskóla kirkjunnar í Skálholti og hefur hann verið fyrirferðarmestur, í þessari deilu. Vopnfimastur á þessum væng hefur þó verið séra Bolli Gústafsson í Laufási.
Á hinum vængnum hafa fleiri lagt orð í belg, en áhrifamestur er þar séra Jón Auðuns dómprófastur, einn helzti höfuðklerkur þjóðarinnar um margra áratuga skeið.
Hér er ekki vettvangur til að gera upp á milli þessara sjónarmiða, sem bæði hafa gild rök að baki sér. Hitt virðist ljóst, að óhætt sé að spá frekara undanhaldi nýguðfræðinnar og spíritismans meðal kirkjunnar manna. Hreintrúarmennirnir hafa aldurinn með sér og þar á ofan valdaaðstöðuna í biskupsembættinu og guðfræðideildinni.
Á móti þessu kemur, að nýguðfræðingar og spíritistar virðast hafa fólkið í landinu með sér. Það kom greinilega fram í skoðanakönnun sálfræðideildar háskólans, sem nýlega var birt.
Aðeins 11% úrtaksins töldu óhugsandi eða ólíklegt, að unnt sé að ná á miðilsfundum sambandi við framliðna. 76% töldu slíkt hins vegar mögulegt, líklegt eða öruggt. og 42% voru svo viss í sinni sök, að telja það líklegt eða öruggt.
Aðeins 7% úrtaksins trúðu ekki á framhaldalíf og töldu það óhugsandi eða ólíklegt. En hvorki meira né minna en 88% töldu þessa höfuðkenningu spíritismans mögulega, líklega eða örugga. Og 68% töldu hana líklega eða örugga og 40% voru alveg viss í sinni sök.
Könnunin leiddi einnig í ljós, að endurholdgunartrú guðspekinnar og nýalsstefnan um framhaldslíf á öðrum hnöttum og fleiri dulrænir þættir trúarbragða eiga traustu fylgi að fagna hér á landi.
Þjóðin sem heild virðist því alls ekki hafa mótazt af þeim straumum, sem hafa verið að móta þjóðkirkjuna á undanförnum árum. En ef til vill eiga Heimir Steinsson og samherjar hans eftir að snúa þjóðinni á sveif með sér. Um það er ekki enn unnt að spá.
-Jónas Kristjánsson
Vísir