Þá er endanlega búið að afgreiða uppgjöf Íslendinga í 50 mílna landhelgismálinu. Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra er með dyggilegri aðstoð Alþýðubandalagsins búinn að þröngva upp á þjóðina afleitum samningi sem gerðum hlut, er ekki þýddi annað en að samþykkja, úr því sem komið var.
Ábyrgð Álþýðubandalagsins er þyngst. Ráðherrar og þingmenn þess vissu strax í upphafi, að samningur Ólafs og Heaths, forsætisráðherra Bretlands, var óaðgengilegur og ástæðulaus og gáfu út yfirlýsingu um það efni. Síðan hringsnerist allt þetta lið í málinu og tryggði því framgang, áður en það kom fyrir alþingi og áður en stjórnarandatöðuflokkarnir fengu sannar fréttir um eðli samningsins.
Þannig fórnaði Alþýðubandalagið landhelgismálinu fyrir von um áframhaldandi setu í ríkisstjórn, og mun skömm þess lengi verða uppi.
Í samningnum er enginn fyrirvari Íslendinga um frekari útfærslu landhelginnar í 200 mílur. En sem betur fer hindrar samningurinn ekki heldur þá útfærslu. Gunnar Thoroddsen, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, hefur á alþingi bent á, að í samningnum sé einungis fjallað um hafsvæðið milli 12 og 50 mílna, og því áliti hann hiklaust, að í honum væri engin fyrirstaða fyrir útfærslu í 200 sjómílna fiskveiðilögsögu.
Við höfum því tapað orrustu en ekki stríðinu öllu. Við getum nú einbeitt okkur að 200 mílna málinu. Allar horfur eru á, að sú herferð geti orðið okkur hagstæðari en 50 mílna herferðin hefur reynzt. Ef við beitum skynseminni, getum við hagað hinni nýju herferð á eftirfarandi hátt:
Fyrir lok þessa árs lýsum við yfir 200 mílna landhelgi, er komi til framkvæmda eftir eitt ár, fyrir lok ársins 1974. Með því leggjum við eitt lóð á vogarskál 200 mílna stefnunnar og stuðlum að framgangi hennar á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem væntanlega hefst í Venezúela fyrir mitt næsta ár. Á þeirri ráðstefnu mun fljótt koma í ljós, að tveir þriðju hlutar ríkja heims vilja 200 mílna auðlindalögsögu, þar með talda fiskveiðilögsögu.
Þessi mikli meirihluti mun verða okkur til mikils stuðnings við útfærsluna í 200 mílur. Að vísu munu Bretar þá verða jafn erfiðir viðfangs og þeir hafa verið út af 50 mílunum. Við verðum þá að nýju að hefja þjark við þá. En við erum orðnir slíku nokkuð vanir.
Þegar hafréttarráðstefnan greiðir svo atkvæði um málið fyrri hluta árs 1975, eiga Bretar hér ekki lengur viðreisnar von í málinu. Fljótlega mun hvert ríkið á fætur öðru staðfesta niðurstöðuna og hún verða þannig að fullgildum alþjóðalögum. Það þarf enga bjartsýni til að ætla, að þetta gerist allt á árinu 1975.
Við höfum þessa þróun í hendi okkar, ef við förum djarft í málið. Við verðum þá komnir í þá sérkennilegu aðstöðu síðari hluta ársins 1975, að
bráðabirgðasamningur við Breta, sem enga viðurkenningu veitir umfram 12 mílur, er að renna út á sama tíma og 200 mílna fiskveiðilögsaga hefur þegar fengið alþjóðlegt lagagildi.
Ósigurinn í 50 mílna málinu breytir því ekki, að hafréttarráðstefnan mun með okkar hjálp færa okkur fullan sigur í 200 mílna málinu.
Jónas Kristjánsson
Vísir