Menn bíða nú í ofvæni eftir mati aðila vinnumarkaðsins á kjarabótaáhrifum frumvarps ríkisstjórnarinnar um efnahags- og fjármálaástandið. Flestir kæra sig lítið um að fá verkföll ofan á annan vanda, sem fyrir er, og fylgjast margir vel með viðtökunum, sem frumvarpið fær.
Fyrstu viðbrögð hafa óneitanlega verið heldur neikvæð. Forustumenn launþegasamtakanna hafa gert lítið úr áhrifum frumvarpsins á lífskjörin. Björn Jónsson hefur talað um, að 4-5% kjarabætur felist í frumvarpinu. Fær hann þá tölu með því að meta einskis ýmis mikilvæg atriði í því.
Eðvarð Sigurðsson hefur gengið lengra og jafnvel haldið því fram, að tollalækkun á ávöxtum muni ekki leiða til lækkunar verðs á þeim, þar sem álagningin sé frjáls. Hér er um grófa rangfærslu að ræða, burtséð frá deilunni um, hvort verðlagshöft eða frjáls álagning gefi lægra vöruverð. Ávextir eru háðir ströngum verðlagshöftum og ströngu eftirliti með hverri einustu sendingu, sem til landsins kemur.
Ekki er von á góðu, þegar viðbrögðin eru af þessu tagi. Það bendir til þess, að óhófleg pólitík sé hlaupin í spilið, er menn grípa til sleggjudóma og rangfærslna til að geta gert lítið úr kjarabótaáhrifum frumvarpsins.
Er nú svo komið, að Alþýðusambandið hefur hvatt aðildarfélögin til að boða verkfall mánudaginn 7.apríl. Þessi áskorun endurspeglar hin neikvæðu viðhorf til frumvarpsins. Að vísu er ekki unnt að ásaka stjórn Alþýðusambandsins fyrir bráðlæti, því að samningaviðræður hafa
staðið yfir í ýmsum myndum í nokkra mánuði. En æskilegra hefði verið, að stjórn sambandsins athugaði frumvarpið fyrst gaumgæfilega, áður en rasað er um ráð fram í vinnudeilum.
Ekki virðist bera þau ósköp á milli sjónarmiða aðila vinnumarkaðsins, að Alþýðusambandinu þurfi að bráðliggja á að efna til verkfalls. Ágreiningurinn hefur síðustu dagana nærri eingöngu snúizt um upphæð láglaunabóta og hvort þær skuli leggjast á eftirvinnu. Með sanngjörnu mati á áhrifum frumvarps ríkisstjórnarinnar ætti að vera unnt að ná samkomulagi um ágreiningsefnin án þess að stofna til ófriðar á vinnumarkaðinum.
Sett hafa verið fram skýr dæmi um, að frumvarpið felur í sér verulegar lækkanir skatta á láglaunafólki og barnmörgum fjölskyldum. Það hefur einnig komið fram, að frumvarpið knýr stjórnvöld til að skera fjárlögin niður um hvorki meira né minna en þrjá og hálfan milljarð króna. Sá niðurskurður er vissulega nauðsynlegur til að beina fjármagninu annars vegar til atvinnuöryggis og hins vegar til lífskjarabóta, en hann er enginn barnaleikur í framkvæmd.
Í þessum ráðagerðum um niðurskurð ríkisútgjalda felst mikill kjarkur stjórnvalda, sem stjórnendur Alþýðusambandsins mættu gjarnan virða og láta ekki pólitíska hagsmuni spilla fyrir félagslegum hagsmunum. Verði félagslegu sjónarmiðin ofan á, er unnt að komast hjá verkföllum, en pólitísku hagsmunirnir leiða hins vegar beint í óefni.
Almenningur bíður í ofvæni eftir niðurstöðu baráttunnar milli hinna félagslegu og pólitísku sjónarmiða.
Jónas Kristjánsson
Vísir