Tiltölulega góð staða

Greinar

Kjarasamningum er nú að mestu lokið. Vinnufriður og full atvinna hafa verið tryggð á flestum sviðum atvinnulífsins. Verkfall er aðeins á stærstu togurunum. Og samningaviðræðurnar hafa leitt í ljós útbreiddan skilning meðal aðila vinnumarkaðsins á nauðsyn kerfisbreytinga á ýmsum sviðum.

Ríkisstjórnin hefur styrkzt vegna friðsamlegrar lausnar vinnudeilnanna. Ofan á hafa orðið hugmyndir hennar um að láta að sinni láglaunabætur leysa vísitölubætur af hólmi. Er útkoman gerólík því, sem varð í fyrra, þegar allt fór úr böndum í samningunum og hálaunamennirnir reyndust hafa fengið meira en láglaunamennirnir, þegar upp var staðið.

Bæði launþegar og vinnuveitendur áttuðu sig á mikilvægi þess, að nú verði tíminn notaður vel til að finna nýtt tekjuverndarkerfi, sem sé minni verðbólguhvati en vísitölubæturnar eru. Slíkt kerfi á að vera þannig úr garði gert, að ekki þurfi að taka það úr sambandi í hvert skipti, sem þjóðarbúið mætir vandamálum.

Hliðstæður skilningur kom einnig fram í samningum útvegsmanna og sjómanna. Báðir aðilar sjá spillinguna í sjóða-og millifærslukerfinu, sem hefur stöðugt magnazt vegna sjálfheldunnar í hlutaskiptareglunum.

Þeir samþykktu því, ” … að óska eftir því við ríkisstjórnina, að hún feli Þjóðhagsstofnun að láta fara fram endurskoðun á samningsfyrirkomulagi varðandi kerfisbreytingu á hlutaskiptum og afstöðu til sjóðakerfis sjávarútvegsins.”

Samninganefndirnar samþykktu að óska eftir skipun tíu manna nefndar fulltrúa sjómanna og útvegsmanna undir forsæti fulltrúa Þjóðhagsstofnunar og að óska eftir áliti nefndarinnar fyrir 1. desember næstkomandi. Þessi sameiginlega tillaga deiluaðila er einn af ljósustu punktum samningaviðræðna undanfarinna vikna.

Samningaviðræðurnar að undanförnu hafa ekki leitt til varanlegs friðar í atvinnulífinu. En þær hafa leitt til bráðabirgðafriðar, sem unnt er að nota til að undirbúa frekari samninga. Vinnuveitendur telja sig geta starfrækt fyrirtækin á grundvelli hinna nýju samninga. Þar með ætti full atvinna að vera trygg í náinni framtíð. Þar með hefur fullur árangur náðst í sjálfu forgangsverkefninu.

Á næstu mánuðum mun koma í ljós, hvernig hinar nýju láglaunabætur reynast. Koma mun í ljós, hvaða árangri þær ná í að stöðva kjararýrnun láglaunafólks. Jafnframt mun hagþróunin skýrast betur á næstu mánuðum, ekki sízt breytingar á stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Allar þessar upplýsingar verður unnt að hafa til hliðsjónar, þegar aftur verður setzt að samningaborði.

Að öllu samanlögðu stöndum við nokkru réttar en sumar nágrannaþjóðir okkar. Við höfum að vísu við ótal vandamál að stríða. En við höfum komizt hjá atvinnuleysi. Við höfum minnkað spennuna í kjarasamningamálunum og tryggt vinnufrið um sinn, Meðal okkar ríkir útbreiddur skilningur á að leysa sem fyrst ýmis kerfisbundin vandamál, sem lengi hafa verið okkur fjötur um fót. Við höfum að töluverðu leyti lært á sambýlið við afleiðingar hinna efnahagslegu áfalla.

Jónas Kristjánsson

Vísir