Gamansamir menn segja, að nú sé verið að reikna, hvort betra sé að fara út- og suðurfærsluleiðina eða norður- og niðurfærsluleiðina. Slíkir brandarar eru vel viðeigandi í þjóðfélagi, þar sem flest vandamál efnahagslífsins eru leyst til bráðabirgða með tilfærslum.
Menn muna, hvernig næstsíðasta ríkisstjórn þurfti einu sinni síðla á ferli sínum að velja milli svonefndrar uppfærsluleiðar, niðurfærsluleiðar og millifærsluleiðar. Að baki þessara nafngifta liggur sú dapurlega staðreynd, að efnahagslífið er í stórum dráttum orðið að bókfærslukerfi hjá hinu opinbera.
Hér ríkir tiltölulega fullkomin jafnaðarstefna í efnahagslífinu. Ríkið hefur tekið að sér að sjá um atvinnuvegina og flestir virðast ætlast til, að svo sé. Þetta leiðir til þess, að haldið er uppi framleiðslu í úreltum og dýrum atvinnuvegum, sem ekki eru til þess fallnir að standa undir góðum lífskjörum. Í staðinn er hagvaxtar- og lífskjaragreinum haldið niðri.
Ofnýting margvíslegra tilfærslukerfa í hálfa öld hefur komið efnahagslífinu í slíka bókhaldsflækju, að útilokað er orðið að meta raunverulegt gildi einstakra þátta atvinnulífsins. Ekki er unnt að bera saman afköst og fyrirhöfn hliðstæðra innlendra og erlendra atvinnugreina. Því síður er hægt að haga hinum ytri aðbúnaði atvinnulífsins á þann veg, að hagkvæmustu greinarnar eflist á kostnað þeirra, sem óhagkvæmastar eru.
Í þessu jafnaðarkerfi er stefnt að því, að út komi á núlli rekstur sem flestra þátta atvinnulífsins. Í þvi skyni er beitt margvíslegum tilfærslum, svo sem of háu gengi, sjóðakerfí, millifærslum, niðurgreiðslum, uppbótum og lánakjörum. Að svo miklu leyti sem þetta dugir ekki kemur ríkissjóður sjálfur til skjalanna með því að auka skuld sína víð Seðlabankann og magna þannig verðbólguna.
Engum virðist nú detta í hug önnur lausn á núverandi efnahagsvanda en sú að fylgja einhverri hinna gamalkunnu bókhaldsaðferða. Að vísu hefur ein leiðin, svonefnd uppfærsluleið, sem áður var einfaldlega kölluð gengislækkun, verið farin svo oft, að hana má ekkí lengur neína. Mest gamna menn sér við möguleika á niðurfærsluleið, sem líka verkar eins og gengislækkun, en hefur verið svo sjaldan notuð, að hún er ekki eins óvinsæl um þessar mundir.
Tilfærslukerfin hafa í hálfa öld dregið verulega úr hagvexti hér á landi og eiga mikinn þátt í því, að Íslendingar verða að vinna óhóflega langan vinnudag til að komast í lífskjörum í samjöfnuð við nágrannaþjóðirnar. Þetta gildir meira að segja um starfsfólk i fiskveiðum og fiskvinnslu, sem löngum hefur haldið uppi þjóðarbúinu. Tilfærslukerfin hafa nefnilega um langan aldur stefnt starfskröftum og fjármagni i rangar áttir.
Vegna alls þessa er ekki nema sanngjarnt að tala um val milli út- og suðurfærsluleiðar annars vegar og norður- og niðurfærsluleiðar hins vegar. Öll þessi bókfærslukerfi hins opinbera eru rangfærsluleiðir, sem hindra þjóðarskútuna í að sigla á fullum dampi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið