Til í slaginn

Greinar

Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra er risinn úr öskustó. Fyrir helgina sagði hann nokkuð þungorður, að ekki kæmi til mála að deila hafsbotninum við Jan Mayen til helminga með Norðmönnum.

Sem betur fer bendir þetta til, að Ólafur sé að taka eða hafi tekið forustu í ríkisstjórninni í þessu erfiða milliríkjamáli. Það er mun betur geymt hjá honum en í linum höndum Benedikts Gröndal utanríkisráðherra.

Tilefni ummæla Ólafs er vafalaust fingurbrjótur, sem Matthíasi Bjarnasyni alþingismanni varð óviljandi á, þegar hann samdi tillögur sínar um Jan Mayen. Þær mátti skilja svo, að Norðmönnum bæri hálfur hinn umdeildi bafsbotn.

Annar fingurbrjótur Matthíasar var okkur hættulegri, er hann sem sjávarútvegsráðherra lét undir höfuð leggjast að láta 200 mílur gilda í átt til Jan Mayen. Þar bjargaði okkur fyrir horn með nokkru snarræði núverandi sjávarútvegsráðherra, Kjartan Jóhannsson.

Óbætt er að fullyrða, að komin er full samstaða innan ríkisstjórnarinnar og með þjóðinni um veganesti okkar í langvinnum og erfiðum viðræðum við Norðmenn.

Við erum andvígir norskri efnahagslögsögu við Jan Mayen. Við viljum meirihluta fiskveiðiréttinda við eyna og allan hafsbotnsrétt. Um þetta erum við sammála.

Hitt er flóknara mál, hvernig við eigum að fara að ná þessu markmiði. Vitað er, að Norðmenn líta öðrum augum á réttarstöðu þjóðanna tveggja við Jan Mayen.

Nú vill svo til eins og oftar áður, að málstaður okkar á sér allgóða vörn bæði í gildandi hafrétti og í drögum þeim til nýs hafréttar, er samin hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Það mundi skipta okkur miklu, ef norskur almenningur áttaði sig á, að í Jan Mayen deilunni eru Íslendingar ekki með hreina frekju, heldur málarekstur á grundvelli alþjóðalaga.

Slíkur skilningur mundi binda mjög hendur norskra samningamanna og hindra þá í að mæta til leiks með því offorsi, sem þeir hafa hingað til sýnt.

Í lögsögudeilum okkar við Breta lögðum við mikla áherzlu á að koma sjónarmiðum okkar á framfæri við brezka fjölmiðla, sem margir hverjir urðu okkur fremur vinveittir.

Hið sama eigum við nú að gera gagnvart Noregi. Fjölmiðlar þar í landi eru frjálslyndir og hafa ekki á móti því að útskýra málstað Íslendinga. Þetta eigum við að nýta.

Í utanríkisráðuneytinu eru til menn, sem eru þrautþjálfaðir í þessum leik. Má þar helzt til nefna Helga Ágústsson, sem á sínum tíma náði mjög góðu sambandi við brezka fjölmiðla. Helgi er núna á hliðarspori varnarmáladeildar, en ætti að vera “okkar maður” í Osló.

Raunar er ekki vanzalaust að hafa liðónýtt sendiráð í Osló, einmitt þegar við þurfum mest á því að halda. Mynd i blaði af sendiherranum okkar með skrípakortið fræga er ekki bezta auglýsingin fyrir málstað okkar.

Einhuga þjóð að baki forsætisráðherra á þungu skriði stendur mun betur að vígi í samningum en hin, sem efast um réttmæti málstaðar síns og telur mótaðilann hafa nokkuð til síns máls.

Þessum efa þurfum við að sá í Noregi, alveg eins og í Bretlandi á sínum tíma. Þar með gröfum við undan þeirri harðlínustefnu, sem norska ríkisstjórnin hefur hingað til rekið í Jan Mayen deilunni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið