Nýtt þorskastríð er hafið. Að þessu sinni eru það Vestur-Þjóðverjar en ekki Bretar, sem eru að hlaupa af sér hornin. Þýzk stjórnvöld hafa sett löndunarbann á íslenzkan fisk í hefndarskyni fyrir töku togarans Arcturusar.
Reynslan sýnir, að slíkar aðgerðir eru tvíeggjaðar. Bretar hafa bitra reynslu af þeim, og Þjóðverjar hefðu átt að geta bergt af þeim reynslubrunni. Í þess stað vönduðu þeir sig jafnvel enn minna en Bretar og höfðu ekki einu sinni fyrir því að etja verkalýðsfélögunum fram í málinu.
Á sínum tíma þvoði brezka stjórnin jafnan hendur sínar af löndunarbanni og kvaðst ekki geta haft afskipti af uppátækjum verkalýðsfélaga. Þessi sauðargæra er ekki á þýzka löndunarbanninu, sem nú er skollið á. Það bann er opinberlega á ábyrgð stjórnvalda – eins konar opinber stríðsyfirlýsing.
Vesturþýzk stjórnvöld munu fljótt reka sig á skuggahliðar löndunarbannsins. Koma mun í ljós, að löndunarbannið er andstætt hagsmunum þýzkra neytenda. Íslenzkur fiskur er um 18% af ísfiski á þýzkum markaði. Brottfall nokkurs eða mikils hluta íslenzka fiskjarins af markaðinum mun valda töluverðri verðhækkun til neytenda. Fróðir menn telja, að sú hækkun verði um 10%.
Þennan herkostnað ætlar þýzka stjórnin að láta almenning í landi sínu greiða til þess að styðja við bakið á auðugum útgerðarfélögum, sem stunda eins konar sjórán á Íslandsmiðum. Vesturþýzka stjórnin hyggst sem sé láta hina mörgu borga fyrir hina fáu. Og hlýtur það að teljast nokkur álitshnekkir fyrir stjórnina, ef upp kemst, að hún er að hossa sérréttindaaðilum á kostnað fólksins í landinu.
Sem aðgerð gegn Íslendingum er löndunarbannið ekki raunhæft. Belgíumenn hafa lengi kvartað yfir því, að Íslendingar séu of íhaldssamir í markaðsmálum og hafi haldið sér við landanir í Þýzkalandi og Bretlandi, þótt girnilegri tilboð hafi komið frá Belgíumönnum. Nú má búast við, að Íslendingar reki af sér þetta slyðruorð og fari að snúa sér í alvöru að belgíska markaðinum.
Enginn þýzkur stjórnmálamaður þarf að láta sig dreyma um,að löndunarbannið leiði til þess, að íslenzkur ísfiskur seljist ekki á svipuðu verði og áður. Hið eina, sem gerist, er, að Belgíumenn fá að njóta hans í stað Þjóðverja. Sumt af honum mun svo síast yfir landamæri Belgíu og Þýzkalands og verða þar til sölu á mun hærra verði en verið hefði, ef ekki hefði komið til löndunarbanns.
Hingað til hafa Þjóðverjar haldið nokkuð vel á spilum sinum í þorskastríðinu. Þeir hafa átölulítið getað veitt 90.000 tonn á ári innan og utan 50 mílna markanna og getað haldið uppi endalausu samningaþófi á meðan. Nú hefur hanzkanum hins vegar verið kastað. Íslenzka landhelgisgæzlan verður hert verulega og ísfiskurinn seldur öðrum en Þjóðverjum- Á hvoru tveggja munu Þjóðverjar tapa. Þeir eru búnir að leika af sér.
Við erum loksins orðnir ofan á í þorskastríðinu.
Jónas Kristjánsson
Vísir