Þyrnum stráð

Greinar

Nýir og nýir gallar eru smám saman að koma í ljós á skattafrumvarpinu, sem fjármálaráðherra hefur lagt fyrir alþingi. Það er sífellt að koma betur og betur í ljós, að endurbætt skattakerfi er ekki markmið frumvarpsins, heldur er markmiðið aukin skattheimta ríkissjóðs.

Ýmsir hafa bent á, hversu illa frumvarpið fer með einstæða foreldra. Reynir Hugason verkfræðingur benti á það hér í blaðinu á mánudaginn, að hrein skattahækkun frumvarpsins nemur 26.000 krónum á hvert barn einstæðs foreldris. “Einkum er það ámælisvert, að skattarnir skuli hækka þeim mun meira sem börn hins einstæða foreldris eru fleiri”, segir Reynir réttilega í greininni.

Aðrir hafa bent á, að frumvarpið gengur út frá þeirri forsendu, “að konur séu og verði láglaunahópur og varavinnuafl í landinu”, eins og Sólveig Ólafsdóttir orðaði það á umræðufundi Kvenréttindafélags Íslands. Enda segja höfundar frumvarpsins sjálfir: “Almennt sagt er þess að vænta, að hjón, þar sem eiginkonan starfar ekki utan heimilis, mundu hafa ávinning af þessari breytingu.”

Ennfremur hefur Reynir Hugason reiknað út áhrif breytingarinnar úr vaxtafrádrætti yfir í vaxtaafslátt. Í fyrrnefndri grein hans kom fram, að breytingin jafngildir 3% vaxtahækkun í landinu á skuldum allra þeirra, sem hafa meira en 925.000 krónur í tekjur á ári. Þetta kemur að sjálfsögðu mjög illa við ungt fólk, sem er að byggja.

Einnig hefur það komið fram, að ýmis kostnaður útivinnandi kvenna er hrapallega vanmetinn í frumvarpinu. Eins mánaðar kostnaður við gæzlu eins barns er svipaður og frumvarpið gerir ráð fyrir, að sé á heilu ári.

Þá hafa margir bent á, að svonefnd sérsköttun hjóna í frumvarpinu er bara það orðalag, sem stjórnmálamenn nota um samsköttun hjóna. Kerfi frumvarpsins er samsköttun, þar sem sameiginlegum tekjum er skipt til helminga. Að kalla slíkt sérsköttun er lélegt orðagjálfur.

Af þessu má vera ljóst, að frumvarpið ræðst á einstæða foreldra, útivinnandi konur og ungt fólk í byggingaframkvæmdum. Hins verður ekki vart, að frumvarpið geri minnstu tilraun til að ná skattalögum yfir ýmsa skattleysingja, sem hafa mikil umsvif og lifa sældarlífi, er venjulegir skattgreiðendur verða að borga fyrir.

Óánægjan með þetta síðasta var þó kveikjan að hinum miklu skattaumræðum síðastliðins árs. Það var hún, sem leiddi til fagurra loforða stjórnvalda um úrbætur. Þau loforð. hafa verið svikin á sérlega grófan hátt í frumvarpi fjármálaráðherra.

Sem betur fer hefur komið í ljós, að margir þingmenn stjórnarinnar og jafnvel ráðherrar eru andvígir þessu ömurlega frumvarpi. Væntanlega nægir sú andstaða til að hindra framgang þess á alþingi. Gætu þá ráðamenn gefið sér tíma til að kanna raunhæfar endurbætur á skattakerfinu, til dæmis í líkingu við þær, sem raktar voru í leiðara Dagblaðsins á þriðjudaginn var.

Ljósasti punkturinn í þessu öllu er, hversu margir óbreyttir borgarar hafa rannsakað skattafrumvarpið og tjáð sig um það.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið