Alþingi lauk með verðugum skrípaleik síðustu þrjá dagana. Taugaveiklunin var orðin svo almenn, að einn forsetinn missti sjónar á þingsköpum og bændur urðu af nokkrum milljörðum króna. Þeir munu tæpast fagna Ingvari Gíslasyni heima í héraði.
Mörg mál dagaði uppi, meðal annars vegna gagnkvæmra hefndaraðgerða stjórnarflokkanna. Úr því að Alþýðuflokkurinn hindraði framgang bændamilljarðanna hefndi Framsóknarflokkurinn sín með því að hindra framgang eftirlauna aldraðra.
Eins og gengur og gerist varð öngþveitið ýmist til góðs eða ills. Bændamilljarðarnir og framhaldsskólafrumvarpið eru tvö dæmi um strandskip, sem nokkuð má læra af. Og vonandi verða slík frumvörp ekki framar lögð fram á sama hátt.
Framhaldsskólafrumvarpið var langt og flókið mál, sem í stórum dráttum horfði til bóta eins og grunnskólalögin á sínum tíma. En höfundar þess gerðu tvenn mistök, sem komu frumvarpinu í koll.
Þeir áttuðu sig ekki á, að verkefna- og tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er orðin afar viðkvæmt mál eftir endurteknar tilraunir ríkisins til að koma kostnaði af sér og yfir á sveitarfélögin. Og þingmenn hlusta á sveitarstjórnarmenn.
Þeir áttuðu sig ekki á, að margir þingmenn eru orðnir þreyttir á margorðri óskhyggju í formi lagagreina. Þeir telja, að lög eigi að vera lög, en ekki greinargerðir og hugleiðingar. Og þeir telja Svíþjóð ekki lengur uppsprettu alls góðs.
Hitt dæmið er einnig fróðlegt. Það er fagnaðarefni, að landbúnaðurinn skuli ekki lengur geta seilzt sjálfvirkt í vasa skattborgaranna. Og það er fagnaðarefni, ef Sjálfstæðisflokkurinn er að losa sig úr álögum Ingólfskunnar.
Hins vegar fagnar Dagblaðið ekki úrslitunum. Í þessum dálkum hefur verið lagt til, að dregið verði úr landbúnaði með skipulegum aðgerðum, til dæmis með því að hætta fyrirgreiðslu vegna fjárfestinga í landbúnaði og með því að borga bændum fyrir að hætta búskap.
Dagblaðið hefur ekki hvatt til einhliða niðurskurðar á tekjum bænda eins og alþingi hefur nú í rauninni framkvæmt. En þannig getur óskipulega farið fyrir atvinnugrein, sem hlaupið hefur yfir mörk velsæmis í fjárkröfum.
Vonandi læra ráðherrar og frumvarpshöfundar þeirra af dæmum sem þessum. Vonandi fara þeir að semja styttri og markvissari frumvörp. Og vonandi verða þeir hræddir við að semja frumvörp um gjafir til þrýstihópa.
Lokið er merkum kapítula í stjórnmálasögunni, stormasömu fyrsta þingi nýrra þingmanna. Vonandi slípast þeir ekki svo í sumar, að þeir mæti aldraðir til jábræðraleiks á næsta hausti. Stormarnir hafa verið til góðs, svona í stórum dráttum.
Hitt er svo annað mál, hvort núverandi þingmenn hafi nokkurn siðferðilegan rétt á sjálfvirkri þingsetu næsta vetur. Hafa þeir ekki leikið þjóðina svo grátt, að kominn sé tími til kosninga? Altjend bera þeir ábyrgð á ríkisstjórn, sem er dauð.
Ríkisstjórnin er svo dauð, að einstakir ráðherrar segja meira að segja, að hún sé dauð. Og hún er svo dauð, að þessum sömu ráðherrum dettur ekki í hug að taka hinum rökréttu afleiðingum, – að segja af sér. Líklega finnst þeim notalegt í bílaleik.
Þingmenn Alþýðuflokksins bera ekkert traust til ráðherra flokksins. Hjá Alþýðubandalaginu gætir einnig vantrausts þingmanna í garð ráðherra flokksins. Þingmennirnir hafa nú látið senda sig heim og hafa skilið eftir dauða ríkisstjórn, sem tæpast hefur þingmeirihluta fyrir því, sem ráðherrana langar til að gera.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið