Nokkrar óþægilega þverstæðar staðreyndir í sjávarútvegsmálum hafa verið dregnar fram í dagsljósið að undanförnu. Þær voru meðal annars teknar til umræðu hér í leiðara Dagblaðsins í gær. Þar var gagnrýnt, að hvellurinn af stöðvun veiðanna um daginn skyldi ekki hafa leitt til neinnar ákvörðunar né neins samkomulags um rannsókn á þessum óþægilegu þverstæðum.
Íslenzkir sjómenn eru svo aflasælir, að hver þeirra dregur að meðaltali helmingi meiri fisk úr sjó en hver sjómaður þeirra þjóða, sem næst okkur koma að aflasæld. Samt eru íslenzku sjómennirnir töluvert tekjulægri en hinir erlendu sjómenn, sem miðað er við. Þessar tvær óhrekjanlegu staðreyndir rekast gersamlega á.
Íslenzk fiskiðja fær hráefni sitt á miklu lægra verði en gengur og gerist hjá nálægum fiskveiðiþjóðum og selur afurðir sinar á svipuðu verði eða heldur hærra verði en aðrir gera. Samt er íslenzkt fiskverkafólk nærri helmingi tekjulægra en hliðstætt starfsfólk hjá hinum sömu þjóðum. Þessar tvær óhrekjanlegu staðreyndir rekast gersamlega á.
Ef hlutur sjómanna væri sóttur með hækkun fiskverðs einni saman, leiddi það til þess, að fiskiðjan gæti ekki einu sinni greitt sínu starfsfólki þau lágu laun, sem það fær í dag. Það er ekki unnt að leysa vandamál fiskveiða á kostnað fiskiðju né heldur öfugt, því að þverstæðurnar gilda beggja megin markanna.
Ef fiskverðið væri hækkað á þann hátt, að útgerðin fengi af óskiptu verði sömu upphæðir og hún fær núna úr sjóðum, sem fiskiðjan greiðir í, væri rotnu millifærslukerfi rutt úr vegi, en þverstæður lífskjaranna væru áfram í fullu gildi.
Er skýringin á þverstæðunum þá sú, að óhóflegur gróði sé annað hvort í útgerð eða fiskiðju eða í báðum greinunum? Það er meira en litið vafasamt, þegar tekið er tillit til lítillar og hægrar myndunar eigin fjár í þessum greinum, þungrar skuldabyrði og sífelldra björgunaraðgerða af hálfu banka og stjórnvalda.
Er skýringin þá fremur sú, að útgerð og fiskiðja sé svo dæmalaust illa rekin hér á landi? Telja má, að rekstur útgerðar verði skynsamlegri, þegar lagt hefur verið niður kerfi millifærslna fram hjá fiskverði, en það eitt er ekki neinn veginn nægileg skýring. Í fljótu bragði virðist rekstur íslenzkra fyrirtækja á þessum sviðum ekki vera ólíkur hliðstæðum rekstri í nágrannalöndunum.
Er skýringin á þverstæðunun þá sú, að mismunur sé á afskiptum ríkisins hér og í nágrannalöndunum? Við vitum, að útgerð og fiskiðja er víða styrkt í nágrannalöndunum en ekki hér. Þessi skýring nægir ekki heldur til að skýra þann grófa mun, sem er á þverstæðunum, er raktar voru hér að framan.
Hvenær átta menn sig á meginskýringunni, sem er jafn augljós og hún er óvinsæl? Það er einmitt kolröng gengisskráning, sem veldur því, að verulegur hluti af tekjunum, sem ættu að renna til sjómanna og fiskverkafólks, er fluttur út í þjóðfélagið til að standa undir landbúnaði, ríkisbákni og öðrum slíkum meintum þörfum þjóðfélagsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið