Þungvæg verkefni bíða Alþingis, sem nú hefur komið saman til vetrarstarfa. Ber þar hæst fiskveiðilögsöguna og þjóðarhag, sem hvort tveggja kallar á víðtæka samstöðu á þingi. Það ætti ekki að verða erfitt í landhelgismálinu, því að þar virðast stjórnmálamenn, fjölmiðlar og allur almenningur vera nokkurn veginn sammála um einarða stefnu.
Efnahagsmálin verða áreiðanlega erfiðari viðfangs. Ástandið er óvenju vont um þessar mundir. Ríkissjóður er tómar og vel það og hið sama er að segja um ýmsa aðra mikilvæga sjóði eins og Byggingasjóð. Samt hefur ríkið verið svo aðgangshart í bankakerfinu, að allt of lítið hefur verið unnt að lána til atvinnulífsins í landinu.
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem að venju verður lagt fram í byrjun þings, mun leiða inn umræður alþingis um þjóðarhag. Ríkisstjórnin hefur farið vel af stað með því að boða verulegan niðurskurð ríkisútgjalda í frumvarpinu. Vonum við, að hún standi við þau orð í fullri alvöru.
Stjórnarandstaðan kann að freistast til þess að gagnrýna hvort tveggja í senn, nauðsynlegan niðurskurð ríkisútgjalda og meintan ódugnað rikisstjórnarinnar við að mynda góðan jarðveg fyrir atvinnulíf og lífskjör í landinu. En ríkisstjórn og alþingi verða að velja um annað hvort, því að ríkisreksturinn er orðinn þjóðinni þyngri baggi en hún getur borið.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið