Þungbúið loft

Greinar

Loftið er þungbúið í alþjóðlegum fjármálum og viðskiptum um þessar mundir. Sumir spá því, að ný kreppa sé í uppsiglingu um heim allan. Við þurfum að fylgjast vel með þessu, því að einhæfni innlendrar framleiðslu veldur því, að utanríkisviðskiptin eru lífæð okkar.

Ekki er samt ástæða til óhóflegrar svartsýni. Enn sem komið er hefur hagþróunin ekki stöðvazt í viðskiptalöndum okkar, þótt hún sé hægari en áður. Olíukreppan og önnur stundarvandamál alþjóðaviðskipta geta horfið eins og dögg fyrir sólu.

Ástandið mun samt enn magna vandamál Íslendinga á næstu mánuðum eins og það hefur gert á undanförnum mánuðum. Óvissan í alþjóðlegum fjármálum veldur því,að erfitt er að fá lán til langs tíma. Þetta getur gert strik í reikninginn í ráðagerðum okkar um lagningu varanlegs slitlags á vegi og mikla fjárfestingu í raforkuverum, svo að dæmi séu nefnd.

Á undanförnum árum höfum við treyst mjög á erlendar lántökur til að fjármagna ýmis innlend framfaramál. Hætt er við, að í náinni framtíð verði að treysta meira á innlendan sparnað og hægari uppbyggingu. Það er ekki að öllu leyti neikvætt, því að erlendar lántökur hafa gengið úr hófi fram á síðustu árum.

Við höfum ástæðu til að vona, að íslenzkar framleiðsluvörur lækki ekki í verði á erlendum markaði. Hins vegar eru ekki heldur horfur á hækkun fiskverðs erlendis. Í heild má búast við, að viðskiptakjör okkar versni nokkuð vegna stöðugra hækkana á innfluttum vörum. Við getum því ekki reiknað með, að viðskiptakjörin bæti lífskjör þjóðarinnar á næstunni. Við verðum eingöngu að treysta á innlenda hagþróun.

Við höfum þegar að mestu leyti tekið á okkur skellinn af olíukreppunni. Líklega verður enn nokkur verðhækkun á olíu, en varla í sama mæli og á undanförnum misserum. Olíuverðið er raunar þegar orðið óeðlilega hátt, því að framleiðslan er mikil og birgðirnar miklar, en notkunin hefur minnkað vegna verðsins. Margir hagfróðir menn spá því, að þetta óeðlilega ástand geti ekki haldizt mjög lengi og olíuverðið hljóti að hrynja fyrr eða síðar.

Við eigum að geta komizt yfir þessi vandamál, ef við förum gætilega í sakirnar. Vegna óvissunnar verðum við að draga nokkuð saman seglin í fjárfestingu, svo að við höfum ráð á að mæta óvæntum vandamálum, sem bera kann að garði, án þess að rýra lífskjörin meira en orðið er.

Nú reynir á þolrifin í þjóðinni. Við verðum að laga okkur eftir aðstæðum og sætta okkur við stöðnun í lífskjörum að sinni. Við þurfum að spara eftir megni til að leggja í varasjóði og fjárfestingarsjóði, sem hafa verið að tæmast á undanförnum mánuðum.

Með samstöðu þjóðarinnar og vinnufriði á að vera unnt að verjast áföllum og byggja jafnframt upp traustari fjárhagsgrundvöll efnahagslegra framfara. Engin ástæða er til að örvænta, þótt ýmsar blikur séu á lofti.

Jónas Kristjánsson

Vísir