Nokkur deilumál eru þess eðlis, að stjórnarflokkarnir geta ekki leyst þau. Í fyrsta lagi Evrópusambandið. Í öðru lagi hvalveiðar. Í þriðja lagi álverin tvö í Helguvík og á Húsavík. Nýja ríkisstjórnin hefur veikan þingstyrk og verður aðeins við völd í þrjá mánuði. Hún þarf að losna við Davíð og halda þjóðfélaginu á floti. Hún getur ekki sinnt öðrum stórmálum. Skynsamlegast er að fresta deilumálunum þremur fram yfir kosningar. Flokkar geta þá, ef þeir vilja, gengið til kosninga með ákveðna skoðun á þessum málum. Þessi deilumál hafa beðið svo lengi, að ekki munar neitt um þrjá mánuði í viðbót.