Fullkomið innra samræmi er í því sjónarmiði margra Íslendinga, að hér eigi ekki að vera bandarískt herlið, hvorki með né án sérstakra gjalda á borð við þau, sem rædd hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu. Og menn geta verið þessarar skoðunar af ýmsum ástæðum, sem hver um sig er fullgild og nægjanleg.
Ein ástæðan er, að Atlantshafsbandalagið sé ekki réttur félagsskapur fyrir Íslendinga. Önnur er, að við eigum að halda fast við fyrri hlutleysisstefnu og forðast þátttöku í flokkadráttum ríkja. Þriðja er, að dvöl varnarliðs bjóði heim árásarhættu. Fjórða er, að þessi dvöl valdi fjármálaspillingu. Fimmta er, að hún deyfi þjóðernisvitund Íslendinga. Og fleiri ástæður mætti tína til.
Einnig er fullkomið innra samræmi í því sjónarmiði margra Íslendinga, að hér eigi um sinn að vera bandarískt herlið, án þess að við höfum af því fjárhagslegan ávinning. Forsendur þessarar skoðunar eru hver um sig fullgild og nægjanleg.
Ein ástæðan er, að við þurfum sjálfir nauðsynlega þessar varnir vegna ótryggs ástands í alþjóðamálum. Önnur er, að við þurfum að fórna þessum anga af sjálfstæði okkar til að styðja við bakið á nágrannaþjóðum okkar, einkum Norðmönnum.
Loks er fullkomið innra samræmi í þeim kenningum, sem Aron Guðbrandsson hefur sett fram og raktar hafa verið rækilega hér í blaðinu að undanförnu, enda sennilega studdar af meirihluta þjóðarinnar. Forsendur “aronskunnar” eru hver um sig fullgild og nægjanleg.
Ein ástæðan er, að Íslendingar fórni miklu fyrir herstöð, sem fyrst og fremst sé í þágu annarra ríkja. Önnur er, að almannavarnir séu hluti af vörnum lands og þjóðar. Hin þriðja er, að ófært sé að hafa hér eins konar fríríki herraþjóðar í landinu. Hin fjórða er, að fordæmi sé hjá Norðmönnum og fleiri þjóðum. Og fleiri ástæður mætti tína til.
Hvert þessara sjónarmiða býr yfir innra samræmi. Þau eru öll gildur þáttur í þjóðmálaumræðu á Íslandi. Hið sama er hins vegar ekki unnt að segja um þá stefnu yfirvalda, sem ríkt hefur frá upphafi. Hún er mitt á milli NATO-hyggjunnar og aronskunnar, full af innri mótsögnum.
Á yfirborðinu er því haldið fram, að bandaríska herliðið sé hér okkur til varnar, þótt löngu sé ljóst, að máttur þess til varnar landi og þjóð er mjög lítill og mun minni en hann gæti verið.
Undir niðri hefur dvöl bandaríska hersins svo verið notuð til að setja verðmiða á landið með ýmsum hætti. Sérstaklega valdir flokksgæðingar hafa verið látnir hagnast á verkefnum í þágu hersins. Sömuleiðis ýmsir gjaldeyrisbraskarar og smyglarar.
Ekki má heldur gleyma verðmiða Marshallaðstoðar og framhaldi hennar í uppbyggingu alþjóðlegs flugvallar, veganotkunargjaldi, loftferðasamningum, hagstæðum lánum, svo og margvíslegri sölu á vöru og þjónustu.
Verjendur núverandi ástands eru hinir einu, sem ekkert hafa til síns máls í deilunum um dvöl bandaríska hersins og um fjármálin, sem tengjast þeirra dvöl.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið