Þrjár stéttir Reykjavíkur

Greinar

Oft er litið á félagsvísindin sem eins konar Öskubusku í vísindunum. Kemur þar aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi einkennast félagsvísindi stundum of mikið af þrætubókarlist miðalda og marxisma. Og í öðru lagi hafa margir félagsvísindamenn slegið lögfræðinga og hagfræðinga út í stéttarmáli, þokukenndri framsetningu.

Grein Bjarna Reynarssonar um félagslegt landslag Reykjavíkur, sem birtist í síðasta hefti Fjármálatíðinda, er skemmtilega laus við þessi vandamál. Í greininni eru notaðir mjög rækilega möguleikar líkindastærðfræðinnar og tölvutækninnar, þannig að til fyrirmyndar má telja í íslenzkum félagsvísindum.

Bjarni notar þáttagreiningu, byggða á fylgnireikningi, til að finna, hver sé stéttaskiptingin eftir hverfum í Reykjavík. Á þessum grundvelli finnur hann þrjár tegundir hverfa í Reykjavík.

Í fyrsta lagi eru hverfi ungs meðal- og hátekjufólks, sem býr í fjölbýlishúsum í nýlegum hverfum og er á uppleið í þjóðfélaginu, bíður eftir því að komast í næsta flokk.

Í öðru lagi eru hverfi miðaldra meðal- og hátekjufólks, sem býr í fábýlishúsum eða einbýlishúsum í grónum hverfum og hefur komið sér sæmilega vel fyrir í þjóðfélaginu.

Í þriðja lagi eru hverfi lágtekju- og meðaltekjufólks, sem komið er á miðjan aldur, án þess að hafa komið sér jafnvel fyrir og fólkið í flokknum hér að ofan.

Þessi stéttaskipting eftir hverfum er ekki eins greinileg og hún er í erlendum borgum, þar sem hún hefur verið mæld með sama hætti. Kemur það heim og saman við fyrri kenningar um, að stéttaskipting sé óvenjulítil hér á landi, þótt ástæðulaust sé að neita alfarið tilvist hennar.

Höfundur þessa pistils kom einu sinni fram með þá tilgátu, að stéttaskipting í líkingu við erlendar fyrirmyndir mundi helzt koma fram, ef skoðaðar væru einstakar götur og götuhlutar, en ekki heil hverfi. Sama tilgáta kemur fram í niðurstöðum Bjarna.

Ef það er rétt, að félagslegt landslag Reykjavíkur sé fíngerðara en hliðstætt landslag erlendra borga, má gera því skóna að félagsleg fjarlægð stétta sé minni í Reykjavík. Stéttirnar geta síður einangrazt í stórum og afmörkuðum hverfum.

Ýmsar slíkar tilgátur hafa ekki verið prófaðar með aðferðum stærðfræðilegra félagsvísinda. Óneitanlega væri mikill fengur að fleiri athugunum á slíkum sviðum. Þær gætu komið að miklu gagni við skipulagningu Reykjavíkur og annarra byggða hér á landi.

Hinar þrjár stéttir Bjarna hafa líka víðara gildi en skipulagslegt. Ef til vill er þarna á ferðinni skiptingin í þjóðina og hina þjóðina, sem sett var fram í leiðara Dagblaðsins fyrir áramótin. Í fyrsta og öðrum flokki er þá sá meirihluti þjóðarinnar, sem hefur komið sér fyrir eða stefnir að því að koma sér fyrir.

Í þriðja flokkinum er þá hin þjóðin, sem ekki getur tekið þátt í lífsgæðakapphlaupinu og býr við þröngan kost í miðju allsnægtaþjóðfélaginu. Þessu fólki þarf að sinna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið