Þrautseigju er þörf.

Greinar

Aðeins vika er nú til útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur og líkurnar á ófriði á miðunum fara dagvaxandi. Þegar er ljóst, að fyrir þann tíma verða engir samningar gerðir við erlend ríki um veiðiundanþágur. Og ljóst er af hljóðinu í ráðamönnum Bretlands og Vestur-Þýzkalands, að þeir eru ekki á þeim buxunum að gefa eftir að sinni.

Við verðum því að herða undirbúning enn eins þorskastríðsins. Eins og fyrri daginn reynir mest á viðbúnað Landhelgisgæzlunnar. Vonandi reynist unnt að halda skipum og flugvél gæzlunnar meira úti en gert hefur verið að undanförnu.

Landhelgisgæzlan þarf að hafa skiptiáhafnir til reiðu, svo að unnt sé að nýta gæzlutækin til fulls. Nú liggja skipin inni þriðjung tímans vegna fría starfsmanna. Skiptiáhafnir auka að sjálfsögðu rekstrarkostnað skipanna, en auka úthald skipanna miklu meira en sem því nemur. Skiptiáhafnir lækka raunar kostnaðinn á hverja úthaldsstund skipa og flugvéla.

Sérfróðir menn hafa bent á, að vélar stærstu og nýjustu varðskipanna séu gerðar fyrir svartolíu, svo að það virðist vera hreinn lúxus að láta þau ganga fyrir dýrum olíum eins og nú er gert. Með því að skipta yfir í svartolíu mætti vafalaust ná upp kostnaðinum við skiptiáhafnir.

Hitt er svo ljóst, að hlutverk Landhelgisgæzlunnar verður mjög erfitt, þótt tæki hennar verði nýtt til fulls. Það er margfalt erfiðara að verja 200 mílna landhelgi en 50 mílna. Yfirmenn og aðrir starfsmenn gæzlunnar munu vafalaust standa sig með prýði eins og jafnan áður, en þeir verða ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu.

Ekki bætir úr skák, að Bretar munu vafalaust telja fyrra samkomulag úr gildi fallið og gera tilraunir til að veiða eftir mætti upp að gömlu tólf mílna mörkunum. Nýjustu yfirlýsingar brezkra ráðamanna benda til þess, að þeir muni beita flota sínum af ekki minni hörku en í fyrri þorskastríðum.

Á hinn bóginn eru Íslendingar ákveðnari í því en nokkru sinni fyrr að láta hart mæta hörðu. Andstaðan í landinu gegn undanþágum, einkum innan 50 mílna, er mjög hörð. Og menn hafa jafnframt áttað sig á, að takmarkað gagn er að sérsamningum við einstök ríki, því að slíkum samningum fylgir ekki afnám refsitolla Efnahagsbandalagsins á íslenzkum fiskafurðum.

Andstæðingar okkar í yfirvofandi þorskastríði kunna því að verða fleiri en áður. Og jafnframt er undirbúningur samninga skemmra á veg kominn en oftast áður. Við verðum því að gera ráð fyrir langvinnu þorskastriði að þessu sinni.

Á meðan verðum við að bíta á jaxlinn og verjast eftir mætti. Ef við látum ekki kúga okkur, vinnur tíminn með okkur, því að stóridómur hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna færist í sífellu nær. Ef við höldum þorskastriðið út fram á mitt næsta ár, ættum við að standa með pálmann í höndunum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið