Þrasað utan dagskrár

Greinar

Hversdagslegur ágreiningur reis fyrir helgina um, hvort Tómas Árnason fjármálaráðherra ætti eða mætti sýna umboðsmönnum þrýstihópa fjárlagafrumvarpið, áður en hann sýndi það þingmönnum með því að leggja það fyrir alþingi.

Fjármálaráðherra kynnti á sérstökum fundi meginstefnu frumvarpsins fyrir umboðsmönnum þrýstihópa vinnumarkaðarins, en vildi ekki fara út í einstök atriði þess. Kristján Thorlacius, formaður opinberra starfsmanna, var óánægður með upplýsingatregðu ráðherrans.

Afstaða Kristjáns var eðlileg, því að taka ákvarðana opinberra aðila er yfirleitt allt of lokuð hér á landi. Almenningur og þrýstihópar standa hvað eftir annað andspænis gerðum hlutum og eiga erfitt með að knýja fram breytingar.

Afstaða ráðherrans var líka eðlileg, því að hann er bundinn hinu lokaða kerfi. Þótt hann vildi, gæti hann ekki brotizt undan því upp á sitt eindæmi. Hann má ekki baka sér reiði samstarfsmanna í ríkisstjórn og stjórnarflokkum.

Síðan gerðist það á mánudaginn, að alþingi varði heilum vinnudegi í að ræða, hvort rétt hafi verið skýrt frá þessum ágreiningi í fjölmiðlum. Voru helztu kjaftaskúmar alþingis svo óðamála, að dagurinn nægði ekki. Varð að fresta umræðunni til morguns.

Umræðan á alþingi varpaði engu nýju ljósi á fréttaflutning af hinu hversdagslega máli. Úr fjarlægð virtist umræðan algerlega óþörf, nema til að þjálfa þingmenn í kjaftavaðli, unz zetan kemst aftur á dagskrá.

Þyngstu ábyrgðina á þessari vitleysu ber Ólafur Ragnar Grímsson, sem kvaddi sér hljóðs utan dagskrár um þetta nauðaómerkilega mál. Krafðist hann leiðréttingar fjármálaráðherra á villandi fréttaflutningi.

Ráðherra kom síðan í pontuna og endurtók það, sem menn vissu þegar úr fjölmiðlum og skýrt hefur verið frá hér að framan. Þetta hefði átt að nægja. Tafir alþingis frá vinnu hefðu orðið litlar og Ólafur Ragnar einn orðið sér til skammar.

En nú ruddist hver þrasarinn á fætur öðrum upp í ræðustól, unz slíta varð fundi, áður en málið yrði útrætt. Þannig var vandamál eins þingmanns gert að vandamálum margra þingmanna og alþingis í heild. Umræður utan dagskrár á alþingi verða eyðilagðar með þessum hætti.

Umræður utan dagskrár eru nauðsynlegar endrum og eins til að varpa kastljósi að sérstaklega brýnu vandamáli þjóðarinnar. Nokkuð hefur hins vegar borið á, að einstakir þingmenn noti þessi afbrigði fundarskapa til að varpa kastljósi að sjálfum sér.

Nokkrum sinnum hefur komið til tals, að of mikill tími færi á alþingi í umræður utan dagskrár og í umræður um fyrirspurnir. Jafnframt væri of lítill tími aflögu til eiginlegra löggjafarstarfa.

Hinu hefur jafnframt verið haldið fram, að umræður utan dagskrár og um fyrirspurnir væru ekki síður nauðsynlegar en umræður um lagafrumvörp. Vandinn væri sá einn, að þingmenn yrðu að hafa á sér aga og ekki hefja slíkar umræður nema af ærnu tilefni.

Þingmenn ættu nú að láta frumhlaup Ólafs Ragnars sér að kenningu verða, halda í hófi sjálfsauglýsingum utan dagskrár og í fyrirspurnum. Þeir þurfa að gæta reisnar alþingis og mega ekki spilla sérstæðu fundaformi með ofnotkun.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið