Heldur var ókræsileg aðkoman, þegar Þórarinn Þórarinsson ritstjóri kom á Tímaheimillð eftir langa fjarveru vestan hafs. Allt var í skralli. Þar óðu uppi menn, sem voru litlu betri en þeir, sem Tíminn hefur síðar kallað “siðferðiskrata” og þykja hneykslanlegir þar á bæ.
Jón Helgason var búinn að skrifa nokkra skelegga leiðara gegn fjármálaspilllngu í þjóðfélaglnu. Engar sendingar höfðu um sinn verið birtar til Kristjáns Péturssonar og annarra slíkra, sem vaða jafnvel yfir hreppamörk í frítíma sínum til að elta uppi vesalings glæpamenn. Þetta var alveg öfært.
Menn úti í bæ voru jafnvel farnir að tala um, að forusta Framsóknarflokksins virtist ætla að læra af reynslunni og fara að losa flokkinn við illa blóðið. Hún hygðist rjúfa öll tengsl flokksins við fjárglæframenn. Hér varð Þórarinn svo sannarlega að taka til höndum á Tímanum og árétta nokkrar sígildar kennisetningar.
Fyrsta reglan er þessi: Ef því er haldið fram, að einhverjir framsóknarmenn séu beint eða óbeint tengdir fjárglæfrum, þá eru slíkar fullyrðingar í öllum tilvikum pólitískar ofsóknir gegn “umbótaflokki, sem vinnur ábyrgt og öfgalaust að félagslegum og verklegum framförum”.
Önnur reglan er þessi: Að minnsta kosti á tveggja vikna fresti skal Kristján Pétursson gagnrýndur í Tímanum fyrir að leita að glæpamönnum út fyrir hreppamörk. “Alger öhæfa” sagði ´í fyrirsögn Tímans um slíka iðju laganna varða.
Þriðja reglan er þessi: Fréttir Dagblaðsins af fjárglæfrum eru birtar í von ráðamanna blaðsins um pólitískan frama. Persónulegt afskiptaleysi af pólitísku vafstri innan flokka er sérdeilis grunsamlegt í augum Þórarins og talið dæmi um, að verið sé “að feta í fótspor Glistrups”. Virðist Þórarinn búast við því, að nýr stjórnmálaflokkur verði stofnaður á vegum Dagblaðsins!
Fjórða reglan er þessi: Dagblaðið er sorprit, af því að það er alltaf að birta þessar fréttir af fjárglæfrum. Verst þykir Þórarni, þegar þessar fréttir eru sem bezt studdar gögnum og heimildum. Þá er Dagblaðið eins og “erlend sorprit”.
Væntanlega felst í þessu mati Þórarins, að siðablaðamennska felist þá í tilboðum Tímans um gagnkvæma þögn pólitísku dagblaðanna um afbrot flokksmanna hvers annars og hótunum blaðsins um að ljóstra upp um aðra, ef ekki sé þagað um framsöknarmennina.
Tímamenn ættu þó að vita, að það varðar við lög að hylma yfir afbrotamönnum, þótt þeir séu úr öðrum stjórnmálaflokkum. Og Tíminn ætti að reyna slík kostaboó og hótanir erlendis, þar sem gefin eru út “sorprit” á borð við New York Times og Washington Post.
Nú er að vita, hvort Þórarni tekst endanlega að leiða inn hin gamalkunnu vinnubrögð á Tímanum og hvort honum tekst að stinga upp í siðferðismenn á borð við Jón Helgason. Ef það tekst, er athyglisverðast, að það er gert í öruggu trausti þess, að kjósendum Framsóknarflokksins sé nákvæmlega sama um, hvað aóhafzt sé í Reykjavík í beinum eða óbeinum tengslum við flokkinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið