Íslenzkir stjórnmálamenn halda fast við hin gömlu vinnubrögð að gefa almenningi rangar upplýsingar um vilja sinn og verk. Sjónhverfingar vísitölumálsins eru skólabókardæmi um óbeit stjórnmálamanna á hreinskilni gagnvart fólki.
Allir stjórnmálaflokkar átta sig á, að einn af þremur höfuðþáttum baráttu gegn verðbólgu hlýtur að felast í minnkun einkaneyzlu almennings, minnkaðri kaupgetu fólks. Annar þátturinn er minnkun fjárfestingar atvinnuvega og þriðji þátturinn er minnkun ríkisumsvifa.
Stjórnmálaflokkarnir eru ekki alveg sammála um, hve mikill hluti vandans eigi að koma í hlut hvers hinna þriggja aðila, almennings, atvinnuvega og hins opinbera. Dagblaðið hefur haldið því fram, að ríkisvaldið eigi sök á þeirri verðbólgu, sem er umfram alþjóðlega verðbólgu, og eigi því að draga saman seglin meira en hinir tveir.
Stjórnmálaflokkarnir hafa hins vegar hagsmuna að gæta. Völd þeirra breytast í hlutfalli við breytingar á umsvifum hins opinbera. Þess vegna eru þeir ákaflega tregir til niðurskurðar hjá ríkinu og vilja fremur leggja meiri byrðar á skattgreiðendur, það er almenning.
Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir kaupráni í upphafi þessa árs. Þess vegna er óþarfi að taka mark á þeim flokki núna, þegar talsmenn hans og málgögn kvarta um kauprán af hálfu hinna flokkanna. Þar sýnir hann aðeins ábyrgðarlausa stjórnarandstöðu. Miklu nær væri, að Sjálfstæðisflokkurinn fagnaði því kaupráni, sem nú er verið að fremja.
Stjórnarflokkarnir þrír hafa allir lagt fyrir ríkisstjórnina tillögur um kauprán. Þær fela það í sér, að kaup hækki ekki um 14,1% nú um mánaðamótin, heldur um 3,6%-6,1%. Auðvitað er það liður í baráttunni gegn verðbólgu að skerða lífskjörin með þessum hætti.
En flokkarnir þora bara ekki að segja fólki sannleikann. Alþýðubandalagið gengur lengst í sjónhverfingunum og heldur því fram, að tillögur sínar feli ekki í sér neitt kauprán. Ríkið muni bæta fólki þetta upp með öðrum hætti.
Talsmenn Alþýðubandalagsins viðurkenna, að slíkt mundi kosta ríkið mikið fé. Þeir segja sex milljarða og aðrir segja fimmtán milljarða. Auðvitað verður þetta fé tekið með sköttum, sem rýra kjör almennings.
Niðurstaðan af tillögum Alþýðubandalagsins yrði sú, að kaupmáttur yrði heldur lakari en hann varð eftir kauprán ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í upphafi ársins.
Hver er líka tilgangurinn, ef hann er ekki kauprán? Hvers vegna er stungið upp á, að 2% kauphækkun verði breytt í “félagslegar umbætur” af hálfu ríkisins, sem komi í sama stað niður? Í rauninni er bara verið að búa til þoku til að drepa málinu á dreif. Því meira sem prósentur eru færðar til og frá, þeim mun meiri líkur eru á, að fólk skilji ekki lengur upp né niður í neinu.
Framsóknarflokkurinn má eiga það, að hann er tregastur til þessa sjónhverfingaleiks. Hann vill skera launin beint niður um 8% og aðeins um 2,5% í sjónhverfingum. Alþýðuflokkurinn gengur beint til verks í 5% lækkun og 5,5% í sjónhverfingum. Alþýðubandalagið ber svo af með 8% kauplækkun í sjónhverfingum.
Vandinn er svo bara sá, að fólk er ekki eins vitlaust og stjórnmálamennirnir virðast halda. Það sér, að talnaleikirnir eru sjónhverfingar, vísvitandi blekkingar. Og vantraust almennings eykst.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið