Þjónustan sem gleymdist

Greinar

Póstþjónustan hefur lengi verið hornreka hjá Pósti og síma. Velflestir yfirmenn stofnunarinnar eru símamenn, sem fyrst og fremst hafa áhuga á framförum í símamálum. Þeir hafa náð góðum árangri á því sviði svo sem sjálfvirka kerfið ber vitni um. En póstmálin hafa setið á hakanum, þótt á því sviði sé um augljóst neyðarástand að ræða.

Vísir gerði fyrir tveimur árum könnun á því, hve lengi póstur væri í ferðum hér á landi. Kom þá í ljós næsta ævintýralegur hægagangur. Póstur var almennt óþarflega lengi á leiðinni. Algengt var, að hann væri heila viku að komast það, sem ekki ætti að taka hann nema einn dag, ef kerfið væri í fullkomnu lagi.

Flest bendir til þess, að ástandið hafi ekki batn að mikið á þessum tveimur árum. Póstmenn komu saman fyrir nokkrum dögum og ályktuðu, að í póstþjónustunni ríkti ófremdarástand. Vildu þeir láta endurnýja kerfið frá grunni. Vonandi tala þeir ekki fyrir daufum eyrum ráðamanna.

Lélegar samgöngur eru engin skýring á neyðarástandinu. Seinagangurinn er stundum mestur, þar sem samgöngurnar eru beztar, svo sem milli Reykjavíkur og Kópavogs. Og úti um hinar dreifðu byggðir eru samgöngur orðnar miklum mun örari og öruggari en var fyrir einum áratug.

Sú breyting til bóta virðist ekki hafa verkað á kerfi póstþjónustunnar að neinu verulegu ráði. Á þessu sviði er greinilega mikið verk að vinna.

Jónas Kristjánsson

Vísir