Þjóðverjar skilja, en…

Greinar

Komið hefur í ljós, sem Vísir hélt fram fyrr á þessu ári, að raunverulega er meiri skoðanamunur í landhelgisdeilu okkar við Þjóðverja en Breta. Hin herskáa stefna Breta hefur valdið því, að mörgum hefur sézt yfir þessa staðreynd.

Bretar hafa enga áherzlu lagt á smíði verksmiðjuskipa og geta því vel sætt sig við, að slík skip fái ekki að veiða innan 50 mílna landhelginnar. Þjóðverjar eiga hins vegar nokkuð af slíkum skipum og hefur þýzku samningamönnunum til þessa verið ákaflega annt um velgengni þeirra.

En hin harða samningastefna Þjóðverja nýtur ekki nokkurs hljómgrunns þar í landi. Þar er aðeins um að ræða ákaflega þrönga sérhagsmuni útgerðarfyrirtækja við Norðursjó, sem hafa beinan aðgang að embættismönnum á borð við Apel, aðalsamningamann Þjóðverja.

Þýzkir stjórnmálamenn, embættismenn og ritstjórar, sem leiðarahöfundur hefur rætt við að undanförnu, hafa undantekningarlaust vit og skilning á sjónarmiðum Íslendinga í deilunni. Þeir telja stjórnsinni ekki sæma að standa í útistöðum af þessu tagi. En gallinn er bara sá, að mjög fáir slíkra manna hafa nægilegan áhuga á málinu. Þeir hafa því engin afskipti af því, svo að útgerðarhagsmunirnir fá áfram að ráða ferðinni.

Þessir menn skilja vel, að útgerðarhagsmunir eru ekki sama og þýzkir hagsmunir. Þeir vita, að útgerð þeirra er ríkisstyrktur vandræðaatvinnuvegur á sama tíma og hinn öflugi iðnaður landsins er í vandræðum með að fá fólk til starfa.

Þeir skilja röksemdir nútíma hagkvæmni. Þeim finnst athyglisvert, að íslenzk útgerð og sjómenn skuli geta náð góðum árangri á sviði, sem hvorki Bretar né Þjóðverjar ráða við.

Þeim finnst ofur eðlilegt að kaupa fisk af þjóð, sem er sérfræðingur í fiskveiðum, og selja henni iðnaðarvörur í staðinn. Þeir skilja þá röksemdafærslu, að hagsmunir útgerðarinnar við Norðursjó ganga þvert á hagsmuni Þýzkalands sem iðnaðarveldis, er skortir mannafl.

Þeim finnst mjög athyglisvert, þegar þeim er bent á, að hagsmunum Þýzkalands í þessu máli væri bezt borgið með viðskiptasamningi við Ísland, er tryggði Þjóðverjum ákveðið árlegt fiskmagn á heimsmarkaðsverði til þess að tryggja, að þessi ágæta neyzluvara hverfi ekki úr verzlunum þar í landi. Þeir sjá, að hagsmunir þýzkra neytenda felast í því að fá sem mestan og beztan fisk, án tillits til þess, hvort hann er af þýzkum eða íslenzkum skipum.

Eina neikvæða atriðið í afstöðu þessara ágætu manna er vantrúin á einlægni Lúðvíks Jósepssonar. Þeir segja, að það þýði ekki fyrir Apel að fallast á kröfur Íslendinga, því að þá komi Lúðvík bara með eitthvað nýtt til að hindra samkomulag.

Þau þýzk blöð, sem hafa látið sig þetta mál einhverju skipta, hafa yfirleitt skrifað af skynsemi og skilningi um málið, einkum der Spiegel, sem virðist hafa mótað að verulegu leyti skoðanir upplýstra Þjóðverja á málinu.

Von okkar er sú, að þessi skynsamlegu viðhorf síist inn í þýzka ríkiskerfið og vegi smám saman upp á móti útgerðarhagsmununum. Þegar þýzk stjórnvöld hafa áttað sig á, að það er raunverulega í samræmi við þýzka hagsmuni að fallast í verulegum atriðum á sjónarmið Íslendinga, er björninn unninn.

Jónas Kristjánsson

Vísir