Stjórnarfrumvarp til jarðalaga, sem Alþingi hefur til meðferðar um þessar mundir, hefur hlotið óvægilega gagnrýni ýmissa aðila, sem boðið hefur verið að segja álit sitt á því. Leggja þessir aðilar til, að frumvarpinu verði vísað frá
Einna harðorðast er Fjórðungssamband Norðlendinga, sem segir ma.: “Það eru vægast sagt ekki vammlaus vinnubrögð hjá nefnd þeirri, sem bjó frumvarpið í hendur Alþingis, að hafa ekki formlega samráð við samtök sveitarfélaganna í einstökum landshlutum og við sýslunefndir. Í sumar var ekki höfð hirða á því að senda frumvarpið til athugunar hjá ýmsum aðilum á milli þinga. Því verður að vara við öllum einstefnuakstri í meðferð þessara mála, sem getur stefnt árangri af samstarfi um þessi mál í tvísýnu”.
Einnig er Samband íslenzkra sveitarfélaga andvígt þessu frumvarpi í núverandi mynd þess. Hins vegar hafa bændasamtökin ekki haft sömu afstöðu og er það merkilegt, því að frumvarpið gengur lengra á rétt bænda en sveitarfélaga.
Frumvarpið færir vald úr höndum bænda og sveitarfélaga í hendur ríkisins. Sérstök byggðaráð á vegum ríkisins eiga að taka við verkefnum, sem sveitarfélög annast nú. Þessi byggðaráð eiga að verða valdamiklar stofnanir og skerða ráðstöfunarrétt bænda á landi þeirra.
Samkvæmt frumvarpinu má ekki stofna nýbýli nema með samþykki byggðaráðs og landbúnaðarráðuneytisins. Og bændur mega ekki ráðstafa landi sínu til annarra nota en landbúnaðar nema með samþykki ríkisins. Með þessu er verið að skerða eignarétt bænda og rýra möguleika þeirra á að fá fullt markaðsverð fyrir land, sem þeir vilja selja.
Fyrir Alþingi liggur annað frumvarp, sem gengur í svipaða átt. Það er frumvarp til orkulaga, sem slær því föstu, að ríkisvaldið skuli eiga öll háhitasvæði landsins. Þar sem sum þessi svæði eru í eigu sveitarfélaga og bænda, felst í frumvarpinu stórfelld upptaka eigna.
Með þessum tveimur frumvörpum er stigið skref í átt til þjóðnýtingar á bændum og skerðingar á valdsviði sveitarfélaga, um leið og miðstjórnarvaldið í Reykjavík er eflt. Ekki verður séð, að bændur og sveitarfélög eigi skilið slíka meðferð af hálfu ríkisins.
Þess vegna verðum við að vona, að alþingismenn taki mark á ráðleggingum samtaka sveitarfélaga og vísi báðum þessum endemis. frumvörpum frá.
Jónas Kristjánsson
Vísir