Þjóðleg stefna?

Greinar

Búizt er við, að ríkisstjórnin leggi tillögu um brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu fyrir alþingi eftir næstu áramót. Eftir ferð Einars Ágústssonar til Washington nú í vikunni er ljóst, að ríkisstjórnin sem heild stefnir að þessu marki.

Nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lýst sig andvíga brottför varnarliðsins. Fróðlegt verður að vita, hvort ráðherrum flokksins tekst að beygja þessa þingmenn og fá þá til að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni, þegar til kastanna kemur.

Ekki er víst, að þingmenn verði að velja á milli tveggja andstæðna, varnarliðs og varnarleysis. Hugsanlegt er, að samningaviðræðurnar við Bandaríkjastjórn, sem senn fara að hefjast, leiði til einhverrar millileiðar, sem báðir aðilar geti sætt sig við. Slík miðlun mundi vafalaust fá brautargengi á alþingi.

En vel verður að vanda til slíkrar miðlunar. Það væri ófært, ef miðlunin fæli aðeins í sér lausn á þessum þætti öryggismála Bandaríkjanna en enga lausn á okkar eigin öryggismálum. Því miður virðist þróun málsins einmitt stefna í þessa varhugaverðu átt.

Herstöðvaleifarnar í Keflavik eru vörnum Bandaríkjanna mikilvægar vegna eftirlitsins með flugi og siglingum á norðanverðu Atlantshafi og norðurhöfum. Vegna legu Íslands er hentugast að stunda þetta eftirlit frá Keflavík. Bandaríkjastjórn mun því leggja mesta áherzlu á, að þetta eftirlit geti haldizt, þótt í breyttri mynd væri.

Núverandi stjórnvöld á Íslandi hafa ekki nokkurn áhuga á hernaðarlegu öryggi landsins. Slík mál eru utan við sjóndeildarhring þeirra. Og það er jafnvel talið óþjóðlegt að hafa áhyggjur af öryggi landsins. Þessi draumalandsstefna mun vafalaust ráða ferðinni í samningum ríkisstjórnarinnar um varnarliðið.

Þegar sjónarmiðum íslenzkra og bandarískra stjórnvalda lýstur saman, er líklegt, að íslenzkir öryggishagsmunir víki. Íslenzku samningamennirnir hafa eingöngu áhuga á að losna við hernámsduld sína og Bandaríkjamennirnir hafa mestan áhuga á eigin vörnum.

Niðurstaðan hlýtur að felast í því, að hernámsduldin hverfi en eftirlitið haldi áfram að einhverju leyti. Vörnum Íslands verður hins vegar tæpast sinnt, því að þær eiga sér engan málsvara í viðræðunum.

Það væri í þágu íslenzks þjóðernis, ef unnt væri að tryggja landinu einhverjar varnir í framtíðinni, meðan öflugir herir standa gráir fyrir járnum á velflestum landamærum. Friðaröld er ekki enn hafin, þótt menn beri í brjósti vissar vonir um hana.

Það furðulega er, að þeir, sem mestan áhuga hafa á brottför varnarliðsins og minnstan áhuga á öryggismálum landsins, telja sig halda uppi þjóðernislegri stefnu. Erum við þó undir minni bandarískum áhrifum en frændur okkar á Norðurlöndum. Og annars staðar í heiminum er áhugi á öryggismálum talinn einn mikilvægasti þáttur þjóðlegrar stefnu.

Jónas Kristjánsson

Vísir