Þjóð kynnist landi

Greinar

Engin kynslóð Íslendinga hefur þekkt landið sitt betur en núverandi kynslóð. Með hverju árinu fjölgar innlendum sumarferðamönnum í byggðum landsins og óbyggðum.

Menn eru farnir að þekkja fjalla- og jöklasóley. Menn þekkja mun á ýmsum gerðum fjalla og eldstöðva. Menn hafa séð hreindýr og gengið á jökul. Margir eru orðnir að gangandi heimildarritum um örnefni og staðhætti um land allt.

Ýmsar ástæður liggja að baki. Bílaeign er orðin almenn. Sumarfærir bílvegir hafa gert Sprengisand og Kjöl að þjóðleiðum þvert yfir landið. Þeir hafa opnað mönnum staði á borð við Landmannalaugar og Hveravelli.

Jeppaeign hefur einnig aukizt hröðum skrefum. Hvarvetna hafa nýjar jeppaslóðir verið opnaðar til afskekktra og forvitnilegra staða. Nú komast menn til dæmis á þessum farartækjum í Kverkfjöll og Lónsöræfi og víðs vegar um hálendi Austurlands.

Hringvegurinn freistar manna að fara hringinn. Við tilkomu hans kynntust menn Öræfum og Vatnajökli, auk þess sem umferð ferðamanna jókst einnig alls staðar annars staðar á hringnum.

Ferðamenn eru betur sjálfbjarga en oftast áður. Miklar endurbætur hafa orðið á viðleguútbúnaði og ferðafatnaði. Þetta er léttara og fyrirferðarminna en áður og veitir betra skjól gegn vindi og regni. Menn geta því notið ferðanna, þótt sólskinið skorti oft.

Fæðing félagsins Útivistar hefur og stuðlað að kynningu lands og þjóðar. Hörð samkeppni hófst milli Ferðafélagsins og Útivistar. Framboð ferða hefur aukizt og orðið fjölbreyttara. Kynningarsamkeppni félaganna hefur um leið aukið þátttöku manna, svo að um munar.

Mest áberandi er hin aukna áherzla á stuttar gönguferðir á Suðvesturlandi, þar sem þéttbýlið er mest. Bæði félögin bjóða upp á slíkar ferðir um hverja einustu helgi árið um kring.

Einnig hafa félögin fjölgað lengri ferðum til staða, sem bjóða upp á gönguleiðir. Sem dæmi má nefna Hornstrandir, sem hafa reynzt vinsælar á þessu sumri.

Rekstur beggja félaganna virðist standa með blóma. Það er vel, því að reynslan hefur sýnt, að samkeppni er nauðsynleg á þessu sviði sem öðrum.

Landkynningarferðir á vegum félaganna hafa þann kost umfram einstaklingsferðir, að reyndir fararstjórar geta oft bent mönnum á atriði, sem þeir annars hefðu ekki tekið eftir.

Vandamál hljóta að fylgja fólksflaumnum. Víða hefur álagið um tíma reynzt meira en viðkvæm náttúra hefur þolað. Þetta hefur víða verið leyst með sérstökum útbúnaði einkum til að takmarka akstur.

Til dæmis hefur verið sett girðing fyrir Hvannalindir og gefizt vel. Hliðstæðar ráðstafanir þarf að gera í Landmannalaugum og víðar, þar sem álagið er enn of mikið.

Yfirleitt er umgengni góð í áningarstöðum. Ekki á að vera nein hætta á ferðum, ef frágangur staðanna af hálfu yfirvalda og umsjónaraðila er með eðlilegum hætti.

Þeim mun meira sem Íslendingar ferðast um landið sitt, þeim mun sterkari verða tengslin við það.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið