Meðan Íslendingar óðu mýrar og klöngruðust um stórgrýti fóru Evrópumenn hratt um góða vegi Rómverja. Forna heimsveldið var eins verkfræðilega sinnað og forfeður okkar voru lausir við nokkurn áhuga á vegagerð. Allar leiðir liggja til Rómar, segir spakmælið. Frægasti Rómarvegurinn var Via Egnatia, sem tengdi Róm við Miklagarð. Eftir þeim vegi fóru menn tæpa þúsund kílómetra á tuttugu dögum. Fimmtíu kílómetra á dag. Á vegalausu Íslandi fóru menn samt litlu hægar yfir, 37,5 kílómetra á dag, eina þingmannaleið. En Rómarvegir standa enn meðan íslenzkir vegir sukku í mýrar eða fuku burt.