Þingeyjarsýslur eru gósenland hestaferðamanna. Endalausar breiður af heiðum og net af dráttarvélaslóðum og moldargötum. Atvinnumálanefnd landshlutans hefur gefið út sjö útivistarkort, sem sýna greiða leið hestaferðamanna. Þar eru tvö öflug fyrirtæki, sem reka hestaferðir, Íshestar hjá Bjarna Páli Vilhjálmssyni í Saltvík og Pólarhestar Stefáns Kristjánssonar á Grýtubakka. Fullur dampur er á hestaleigum við Mývatn. Tvö undanfarin sumur hef ég vikum saman verið í hestaferðum í sýslunum. Átt góð samskipti við bændur um haga, gistingu og leiðir. Hestar eru ört vaxandi atvinnuvegur á svæðinu.