Þiggið ráðin víða að.

Greinar

Nýlega dró Carter Bandaríkjaforseti sig í hlé í sumarbústað embættisins, Camp David. Tilgangur hans var að fá svör við, hvers vegna trausti þjóðarinnar á forsetanum hefur farið hrakandi að undanförnu. Í tvær vikur var Carter um kyrrt í bústaðnum.

Þessi tími fór ekki eingöngu í naflaskoðun. Þyrlur voru í stöðugum flutningum til Camp David með ríkisstjóra, þingmenn öldungadeildar og fulltrúadeildar, borgarstjóra, aðra stjórnmálamenn, menntamenn, athafnamenn, verkalýðsforingja, presta, blaðamenn og ýmsa fleiri.

Samtals bauð Carter til sín um 130 gestum. Og á kvöldin fór hann stundum að óvörum í heimsókn til óbreyttra borgara, líklega til jafnvægis gegn höfðingjunum, sem hann fékk í heimsókn.

Carter spurði allt þetta fólk, hvað væri að hjá sér. Hann leitaði ráða hjá því, demókrötum og repúblikönum, höfðingjum og óbreyttum. Og hann skrifaði sjálfur niður alla gagnrýni, sem kom fram.

Auðvitað hafa sumir gestanna reynt að sleikja hann upp, eins og margra er siður, þegar þeir standa andspænis valdinu. En þeir voru nógu margir, sem sögðu honum hreinskilnislega, í hvaða atriðum þeir teldu honum hafa mistekizt landsstjórnin.

Afleiðingin af þessum tveimur vikum í Camp David var meðal annars sú, að Carter skipti um fimm ráðherra í ríkisstjórninni. Af bandarískum fjölmiðlum má ráða, að þessi skipti hafi mælzt vel fyrir.

Afleiðingin var einnig sú, að Carter skipti alveg um tóntegund, þegar hann flutti þjóðinni ræðu um orkubúskap Bandaríkjanna. Hann talaði eins og siðaprédikari, alveg eins og hann hafði raunar gert, áður en hann varð forseti og drukknaði í embættisverkum.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Um langt skeið höfðu menn látið sér fátt um finnast hinar strjálu ræður Carters. Þessi ræða vakti hins vegar töluverða athygli og velvilja hjá þjóðinni. Sumir skýrendur telja, að hún sé upphafið að því, að gæfa Carters snúi nú til betri vegar.

Hér á landi hefur löngum verið lítið um, að landsfeður þiggi ráð víðs vegar að, frá andstæðingum og almenningi, jafnt sem öðrum. Líklega komst Ólafur Thors næst þessu á sínum tíma. Og nú á dögum er það helzt Albert Guðmundsson, sem hlustar á fólk.

Siðvenja landsfeðra á Íslandi hefur fremur líkzt háttum Nixons, fyrrum Bandaríkjaforseta. Hann lokaði sig alveg inni í þröngum hópi ráðgjafa og einkavina. Sagt var, að hann umgengist aðeins fimm menn.

Nixon einangraðist frá umheiminum. Hann vissi ekki, hvað var að gerast kringum hann. Hann var háður áliti örfárra manna, sem allir voru af sama sauðahúsi og hann sjálfur. Þeir fluttu honum raunveruleikann í afbakaðri útgáfu. Sú harmsaga öll er mönnum vel kunn.

Hér á landi gekk Geir Hallgrímsson einna lengst í einangrun sem forsætisráðherra. Hann talaði ekki við fólkið í landinu, ekki við stjórnmálaandstæðinga, ekki einu sinni við flokksbræður með sjálfstæðar skoðanir.

Fjölmiðlamenn höfðu það á tilfinningunni á valdatíma Geirs, að hann talaði aðeins við tvo eða þrjá einkaráðgjafa, sem hugsuðu nákvæmlega eins og hann sjálfur. Samanlagt voru þeir langt frá því að vera spegilmynd af þjóðfélaginu í heild.

Einangrun þessi átti töluverðan þátt í hinni hraklegu útreið, sem Geir Hallgrímsson og Sjálfstæðisflokkurinn fengu í síðustu alþingiskosningum.

Öll þessi dæmi ættu að hvetja íslenzka landsfeður allra flokka til að hlusta á fólk og þiggja ráð úr mörgum áttum eins og Carter er að reyna vestan hafs.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið