Ian Traynor segir í Guardian, að Bandaríkin séu að ríða net herstöðva um allan heim, þar á meðal á svæðum, þar sem þau hafa ekki verið áður. Hann hefur eftir bandarískum embættismönnum, að þau hyggist hafa fjórar herstöðvar í Írak til frambúðar. Í tengslum við stríðið gegn Afganistan komu Bandaríkin sér upp herstöðvum níu löndum umhverfis landið. Viðræður standa yfir um bandarískar herstöðvar í Póllandi, Rúmeníu og Búlgaríu. Paul Wolfowitz, hugmyndafræðingur bandaríska stríðsráðuneytisins, sagði í viðtali við New York Times, að tilgangur bandarískra herstöðva væri meira pólitískur en hernaðarlegur. Þær sendi skilaboð til allra jarðarbúa um að halda sér á mottunni gagnvart Bandaríkjunum.