Forustumenn samtaka launþega og vinnuveitenda hafa komizt að raun um, að umbjóðendur þeirra hafa margvíslegra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Til viðbótar við hefðbundnar deilur þeirra um skiptingu kökunnar er nú komið samstarf um tilraunir til stækkunar kökunnar, sem er til skiptanna, svo að bæði launþegar og vinnuveitendur hafi í senn hag af.
Þetta kemur greinilega fram í sameiginlegri kröfugerð Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins á hendur ríkisvaldinu. Á miðvikudaginn fékk rikisstjórnin í hendur fimmtán atriða lista frá þessum aðilum. Þar kemur fram dýpri skilningur en áður hefur sézt á því, hvernig þessir tveir þrýstihópar geti bætt hag sinn, án þess að gera það á kostnað hvor annars.
Þungamiðjan í atriðunum fimmtán er krafan um, að ríkisvaldið dragi úr útgjöldum sínum og skattheimtu. Bent er á, að umsvif hins opinbera hafi aukizt hröðum skrefum á undanförnum árum og sé árið í fyrra engin undantekníng á því. Því er réttilega haldið fram, að hið opinbera hafi ekki tekið tillit til samdráttarins í þjóðartekjum.
Samtök vinnumarkaðarins telja, að sparnað í útgjöldum ríkisins eigi að nota til að lækka söluskatt og fella niður tolla, söluskatt og vörugjald af hráefnum, vélum og tækjum til framleiðslu i samkeppnisiðnaði, þar á meðal fiskiðnaði. Ennfremur til að lækka launaskatt og fasteignaskatta.
Þessar tillögur beinast einkum að því að lækka álögur á fyrirtækjum. En launþegar mundu einnig hafa óbeinan hag af þeim, þar sem þær mundu efla greiðslugetu fyrirtækjanna. Í tillögunum er ekki fjallað um lækkun né afnám tekjuskatts af almennum launatekjum, sem ætti þó að vera eðlileg krafa beggja aðila.
Í tillögunum er lögð áherzla á fulla atvinnu og viðnám við verðbólgu, enda líta menn nú um öxl til einnar geigvænlegustu verðbólgu aldarinnar og fram á veg til vaxandi hættu á atvinnuleysi. Svo kann að fara, að velja þurfi á milli verðbólgu og atvinnuleysis og munu þá væntanlega flestir taka verðbólguna fram yfir.
Aðilar vinnumarkaðsins eru í tillögunum sammála um, að endurskoða þurfi verðlagningu landbúnaðarvara og önnur verðmyndunarkerfi. Hin fölsku verðmyndunarkerfi, sem við búum við hér á landi, eru einmitt ein helzta ástæðan fyrir óhóflega hægum hagvexti og þar af leiðandi óhóflega lélegum lífskjörum miðað við möguleika.
Í kröfunum er ekki einungis farið fram á, að hagur fyrirtækja verði bættur með lækkun ýmissa skatta, beldur verði einnig bætt lánakjör framleiðslufyrirtækja og vextir lækkaðir. Ennfremur er farið fram á, að hagur launþega verði bættur með endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins og með þvi að greiða vexti af innistæðum orlofsþega hjá Pósti og sima.
Þessar tillögur eru flestar verulega skynsamlegar. Þær bljóta að veita rikisstjórn og alþingi verulegt aðhald. Einnig ætti framkvæmd þeirra að draga úr hinni hefðbundnu spennu milli aðila vinnumarkaðsins. Þær miða að stækkun kökunnar, sem er til skiptanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið